Hoppa yfir valmynd
20. október 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Samið um byggingu 100 rýma hjúkrunarheimilis í Reykjavík

Heilbrigðisráðherra og borgarstjóri handsala samkomulagið - mynd

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri undirrituðu í dag samning um byggingu hjúkrunarheimilis í Reykjavík. Framkvæmdir eiga að hefjast í byrjun næsta árs og er stefnt að því að heimilið verði tilbúið snemma árs 2019. Heildarkostnaður framkvæmdanna er áætlaður rúmir 2,9 milljarðar króna, að búnaðarkaupum undanskildum.

Reykjavíkurborg leggur heimilinu til lóð, í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu, og hefur ákveðið að það verði byggt við Sléttuveg í Fossvogi. Borgin mun annast hönnun og verkframkvæmdir og skal við hönnunina fylgja viðmiðum velferðarráðuneytisins um skipulag hjúkrunarheimila þar sem áhersla er lögð á að aðstæður séu sem heimilislegastar en mæti engu að síður þörfum fólks með skerta getu og þörf fyrir hjúkrun, þjálfun og endurhæfingu.

Skipting kostnaðar miðast 40% framlag úr Framkvæmdasjóði aldraðra, 45% úr ríkissjóði og 15% frá Reykjavíkurborg. Áætlaður heildarkostnaður við hönnun og byggingaframkvæmdir upp á rúma 2,9 milljarða króna miðast við 100 hjúkrunarrými en gert er ráð fyrir sveigjanleika við hönnun þannig að fjöldi rýma getur verið á bilinu 95–105. Framlög framkvæmdasjóðs og ríkissjóðs til borgarinnar verða greidd í fjórum áföngum eftir því sem verkinu vindur fram, eins og nánar er kveðið á um í samningi. Kostnaður vegna búnaðarkaupa skiptist á sama hátt.

204 ný hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu

Hjúkrunarheimilið við Sléttuveg er annað tveggja hjúkrunarheimila sem rísa mun á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum samkvæmt framkvæmdaáætlun heilbrigðisráðherra um uppbyggingu hjúkrunarheimila sem samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir staðfesti í byrjun þessa árs. Að auki standa fyrir dyrum framkvæmdir við nýtt hjúkrunarheimili á Seltjarnarnesi. Samtals liggja því fyrir ákvarðanir um uppbyggingu 204 nýrra hjúkrunarrýma á höfuðborgarsvæðinu.

Reykjavíkurborg og Sjúkratryggingar Íslands munu gera samning um rekstur hjúkrunarheimilisins og skal hann liggja fyrir eigi síðar en í lok apríl 2018. Borginni er heimilt að fela þriðja aðila að reka hjúkrunarheimilið að fenginni staðfestingu Sjúkratrygginga Íslands. Ábyrgð á samningsskyldum við stofnunina verður þó ekki framseld.

Ný þjónustumiðstöð og íbúðir fyrir aldraða

Samhliða byggingu hjúkrunarheimilisins mun Reykjavíkurborg standa að byggingu þjónustumiðstöðvar og íbúða fyrir aldraða og verður innangengt við hjúkrunarheimilið. Markmiðið er meðal annars að samnýta aðstöðu eins og eldhús, sali, sjúkraþjálfun, tómstundaaðstöðu o.fl. Gert er ráð fyrir þessari samnýtingu í samningnum um byggingu hjúkrunarheimilisins sem undirritaður var í dag. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum