Hoppa yfir valmynd
24. október 2016 Forsætisráðuneytið

Félags- og húsnæðismálaráðherra opnaði í dag vefsíðu jafnlaunastaðalsins

Fjallað var um tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðalsins á morgunverðarfundi um launajafnrétti í dag. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, opnaði þar vefsíðu staðalsins en hún er meðal afurða tilraunaverkefnisins og birtir greinargóðar upplýsingar um staðalinn og notkun hans.

Staðallinn tryggir fagleg vinnubrögð sem fyrirbyggja hvers konar mismunun og hann nýtist atvinnurekendum til að bjóða starfsfólki réttláta og gagnsæja launastefnu.  

Á síðunni; www.velferdarraduneyti.is/jafnlaunastadall, má fræðast um forsögu verkefnisins og fá svör við algengum spurningum um ferli innleiðingar, verkfærakistu sem þróuð hefur verið til að auðvelda atvinnurekendum verkefnið og upplýsingar um námskeið um starfaflokkun, launagreiningar, gæðastjórnun og skjölun upplýsinga.  

Á síðunni má einnig skoða jafnlaunamerkið sem veitt verður þeim vinnustöðum sem hljóta faggilda vottun á jafnlaunastaðlinum af viðurkenndri vottunarstofu.  

Haustið 2014 efndi aðgerðahópurinn í samstarfi við Hönnunarmiðstöð Íslands til hönnunarsamkeppni um jafnlaunamerki og bar tillaga Sæþórs Arnar Ásmundssonar sigur úr býtum.  

Í umsögn dómnefndar sagði: „Í merkinu má sjá mynd sem sýnir skífurit, stimpil, rúnir og brosandi andlit tveggja ólíkra einstaklinga. Í lögun minnir merkið á mynt eða pening og gefur þannig til kynna að einstaklingarnir sem þar sjást séu metnir jafnir að verðleikum. Merkið býður upp á alþjóðlega notkun, er einstakt og lýsandi fyrir verkefnið.“ Aðgerðahópurinn fól Sæþóri einnig það verkefni að útfæra jafnlaunamerkið sem grip sem fyrirtæki og stofnanir sem hlotið hafa jafnlaunavottun fá afhent til varðveislu.  

Gripurinn vísar ekki eingöngu til tveggja einstaklinga sem metnir eru jafnir að verðleikum heldur einnig til gagnsæi launastefnu viðkomandi stofnunar eða fyrirtækis.  

Jafnlaunastaðallinn þýddur á ensku

Jafnlaunastaðallinn er stjórnunartæki sem er einstakt á heimsvísu og hefur hann vakið verðskuldaða athygli út fyrir landsteinana.  

Hjá Staðlaráði Íslands er nú unnið að þýðingu staðalsins á ensku og því ætti innan skamms að vera hægt að kynna hann fyrir evrópskum og alþjóðlegum staðlasamtökum.

Jafnlaunamerkið - 360 gráðu myndbandsklippa af gripnum

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum