Hoppa yfir valmynd
24. október 2016 Utanríkisráðuneytið

Fundað með formönnum utanríkismálanefnda um öryggismál, jafnrétti og Brexit

Lilja og sex af átta nefndarformönnum. - mynd

Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra átti í dag fund með formönnum utanríkismálanefnda þjóðþinga Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna en þeir eru staddir hérlendis í boði Alþingis. Náið og reglulegt samstarf er með þjóðunum átta og er horft til þess í æ ríkari mæli á alþjóðavettvangi.

Á fundinum voru öryggis- og varnarmál rædd, m.a. samskiptin við Rússa, staða mála í Úkraínu og Sýrlandi í því sambandi. Minntist utanríkisráðherra þess að 30 ár eru liðin frá leiðtogafundinum í Höfða. „Lærdómurinn sem við drögum af Höfðafundinum er fyrst og fremst mikilvægi samtalsins. Það er mikilvægt að eiga góð og hreinskiptin samskipti við Rússa; bæði tvíhliða og innan alþjóðastofnana, svo sem Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og í NATO-Rússlandsráðinu.“ Þá skýrði Lilja einnig frá nýskipuðu þjóðaröryggisráði og nýrri þjóðaröryggisstefnu.

Málefni norðurslóða og loftslagsmál voru einnig til umræðu, sem og afleiðingar væntanlegrar útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, sem Lilja sagði öll ríki Evrópu yrðu að bregðast við. Kynnti hún vinnu íslenskra stjórnvalda í því sambandi og hvatti til samráðs við að leysa þau fjölmörgu álitamál sem upp kynnu að koma í tengslum við útgönguna.

Aðra útgöngu bar einnig á góma, þar sem íslenskar konur hyggjast ganga út í dag kl. 14:38 til að krefjast kjarajafnréttis. Sagðist Lilja myndu vera í hópi þeirra kvenna sem yfirgæfu vinnustaðinn á slaginu kl. 14:38 til að sýna samstöðu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum