Hoppa yfir valmynd
24. október 2016 Dómsmálaráðuneytið

Kjósendur sem þurfa aðstoð við atkvæðagreiðslu

Skilyrði aðstoðar og þagnarheit
Kjósanda sem sakir sjónleysis eða þess að honum er hönd ónothæf er heimilt að óska þess að kjörstjóri eða fulltrúi úr kjörstjórninni sem hann velur sjálfur aðstoði hann við að kjósa í kjörklefanum og er sá sem aðstoðina veitir bundinn þagnarheiti um að segja ekki frá því sem þeim fer þar á milli.

 Kjósandi getur einnig valið sér sjálfur fulltrúa til aðstoðar í stað kjörstjóra eða kjörstjórnarmanns. Þennan vilja sinn verður kjósandinn að tjá kjörstjóra eða kjörstjórn óþvingað með skýrum hætti og að fjarstöddum fulltrúanum sem hann hefur valið sjálfur. Ef þetta gengur eftir skal orðið við ósk kjósandans og fulltrúi hans undirritar þagnarheit á sérstöku eyðublaði áður en hann aðstoðar kjósandann við atkvæðagreiðsluna.

Geti kjósandi ekki sjálfur með skýrum hætti tjáð kjörstjórn þennan vilja sinn skal kjörstjórn heimila fulltrúanum að aðstoða kjósandann við atkvæðagreiðsluna leggi kjósandinn fram vottorð réttindagæslumanns, sem starfar samkvæmt lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, þar sem staðfest er að kjósandi hafi valið sjálfur þennan tiltekna  fulltrúa sér til aðstoðar við atkvæðagreiðsluna.
Sjá skrá yfir réttindagæslumenn fatlaðs fólks: Velferðarráðuneytið og Landssamtökin Þroskahjálp

Aðeins má aðstoða einn kjósanda
Fulltrúa kjósanda er óheimilt að gerast fulltrúi annars kjósanda við sömu kosningu. Þá mæla lögin fyrir um að það sé refsivert fyrir fulltrúa kjósandans að segja frá því hvernig kjósandinn greiddi atkvæði.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum