Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Lifandi kennslustofa um loftslagsbreytingar

Á sýningunni verður hægt að kynna sér bráðnun jökla á svæðinu. - mynd

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, sótti á dögunum þjóðgarðssvæðið í Skaftafelli heim þar sem hún kynnti sér m.a. undirbúning sýningar sem áformað er að setja upp í Skaftafelli um bráðnun jökla.

Sýningin er liður í verkefni í sóknaráætlun Íslands í loftslagsmálum, sem ber heitið „Jöklar Íslands – lifandi kennslustofa um loftslagsbreytingar“. Meðal annars stendur til að útbúa merkingar í landslaginu við skriðjöklana í Skaftafelli þannig að hægt verði að sjá með berum augum hversu mikið þeir hopa ár frá ári (eða skríða fram). Verkefnið er unnið í samstarfi Vatnajökulsþjóðgarðs og Veðurstofu Íslands, en einnig hefur Náttúrustofa Suðausturlands komið að því.

Vísindamenn telja að áhrifa hlýnunar sé nú þegar farið að gæta í náttúru Íslands og að verulega meiri áhrifa sé að vænta á þessari öld. Allir jöklar landsins sem ekki eru framhlaupsjöklar hopa nú hratt og talið er að þeir muni hverfa að mestu leyti á næstu 100-200 árum ef svo fer fram sem horfir. Aðgengi að jökulsporðum er óvíða í heiminum betra en á Íslandi og þá einkum sunnanmegin í Vatnajökli, sem getur því með réttu talist „lifandi kennslustofa“ um loftslagsbreytingar nú og í framtíðinni. Talið er að þessi tenging vísindalegrar vöktunar, fræðslu og ferðaþjónustu geti vakið mikla athygli.

Ráðherra ásamt gestgjöfum

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn