Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Fjölmenni á vel heppnuðu málþingi mennta- ogmenningarmálaráðuneytis og Evrópumiðstöðvar

Málþing Evrópumiðstöðvar án aðgreiningar - mynd
Í tengslum við haustfund Evrópumiðstöðvar um nám án aðgreiningar og sérþarfir (European Agency for Special Needs and Inclusive Education) sem haldinn er á Íslandi með fulltrúum menntamála 29 Evrópulanda, stendur mennta -og menningarmálaráðuneytið fyrir málþingi með miðstöðinni.

Á málþinginu er fjallað um dreifstýringu í evrópskum menntakerfum, þróun, áskoranir og tækifæri. 50 evrópskir fulltrúar og 50 íslenskir fulltrúar frá ýmsum hagsmunaaðilum í menntakerfinu taka þátt. Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra ávarpaði fundinn og nýtti m.a. tækifærið til að þakka Evrópumiðstöðinni fyrir gott samstarf við úttekt á menntun án aðgreiningar á Íslandi.

Úttektin nær til leik-, grunn-, og framhaldsskólastiga þar sem kannað er hvernig til hefur tekist við innleiðingu hugmyndafræðinnar um menntun án aðgreiningar. Niðurstöður úttektarinnar munu liggja fyrir í lok janúar.
Ráðherra lýsti ánægju sinni með samstarf við hagsmunaaðila hér á landi og mikilvægt framlag þeirra við framkvæmd úttektarinnar.

Ráðherra notaði einnig tækifærið til að þakka þremur íslenskum nemendum fyrir þátttöku þeirra í ráðstefnu ungmenna í Evrópu þar sem rætt var um sýn þeirra og væntingar til skólakerfis framtíðar. Nemendurnir tóku til máls og lýstu reynslu sinni og upplifun af þessu verkefni og hvöttu í lokin til þess að hlustað væri á raddir ungmenna í þróun og skipulagi menntakerfa fyrir alla, án aðgreiningar.

Á meðfylgjandi mynd eru frá vinstri:

Per Gunvall stjórnarformaður Evrópumiðstöðvarinnar, Hrefna Önnudóttir og Lilly Karen Pálsdóttir framhaldsskólanemar, Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra, Þórður Jónsson háskólanemandi og Cor Meijer forstjóri Evrópmiðstöðvarinnar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn