Hoppa yfir valmynd
28. október 2016 Innviðaráðuneytið

Mál nr. 17/2016

Úrskurður yfirfasteignamatsnefndar 13. október 2016 í máli nr. 17/2016.
Fasteign: Ásabraut [ ], Grímsnes- og Grafningshreppi, fnr. [ ].
Kæruefni: Gjaldflokkur fasteignar.

Árið 2016, 13. október, var af yfirfasteignamatsnefnd í máli nr. 17/2016 kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

Með bréfi, dags. 21. júní 2016, kærði Bergur Hauksson hdl. fyrir hönd A, kt. [ ], álagningu fasteignaskatta vegna Ásabrautar [ ], Grímsness- og Grafningshreppi, fnr. [ ] fyrir árið 2016.

Yfirfasteignamatsnefnd óskaði með bréfi, dags. 19. júlí 2016, eftir umsögn Grímsness- og Grafningshrepps. Umbeðin umsögn barst frá sveitarfélaginu með bréfi, dags. 11. ágúst 2016.

Hinn 11. ágúst 2016 var umrædd umsögn send kæranda og honum gefinn kostur á að gera við hana athugasemdir. Með bréfi, dags. 24. ágúst 2016, bárust frekari athugasemdir af hálfu kæranda. Þær athugasemdir voru sendar sveitarfélaginu. Engar frekari athugasemdir bárust. Málið var tekið til úrskurðar 19. september 2016.

Málavextir
Hinn 16. desember 2014 fékk kærandi útgefið leyfi til reksturs gististaðar í flokki II fyrir fasteignina (aðalhús og gestahús) að Ásabraut [ ], Grímsnes- og Grafningshreppi, fnr. [ ]. Sveitarfélagið kveðst hins vegar ekki hafa haft vitneskju um útgefið rekstrarleyfi fyrr en í byrjun apríl 2016. 

Kærandi fékk sendan greiðsluseðil vegna fasteignagjalda eignarinnar um miðjan apríl 2016, sem gaf til kynna breytingu á áður álögðum fasteignagjöldum ársins 2016 til hækkunar frá því sem áður hafði verið ákveðið. Kærandi óskaði eftir skýringum á breyttri álagningu og fékk þá þær skýringar að álagður fasteignaskattur ársins 2016 vegna fasteignarinnar væri ákvarðaður samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 en ekki samkvæmt a-lið sömu lagagreinar eins og áður hafði verið gert, þar sem fyrir lægi að fasteignin væri nýtt til ferðaþjónustu.

Í kjölfar þessarar ákvörðunar áttu kærandi og sveitarfélagið í tölvupóstssamskiptum vegna málsins. Í tölvupósti kæranda til sveitarfélagsins 27. apríl 2016 óskaði kærandi eftir rökstuðningi sveitarfélagsins fyrir fyrrgreindri ákvörðun. Með bréfi sveitarfélagsins til kæranda, dags. 4. maí 2016, var sá rökstuðningur veittur og kom þar fram sú röksemd sveitarfélagsins að fasteignagjöld fasteignarinnar að Ásabraut [ ] bæri að ákvarða samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, þar sem hún væri nýtt í ferðaþjónustu og því til staðfestingar hefði verið gefið út rekstrarleyfi til reksturs gististaðar í fasteigninni.

Kærandi vill ekki una framangreindri ákvörðun sveitarfélagsins og hefur því kært hana til yfirfasteignamatsnefndar líkt og að framan greinir.

Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir þá kröfu að felld verði úr gildi ákvörðun Grímsness- og Grafningshrepps um endurálagningu fasteignaskatts vegna Ásabrautar [ ], fnr. [ ], þar sem sveitarfélagið hafi skort lagaheimild fyrir ákvörðuninni og hún sé auk þess ekki í samræmi við 1. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga þar sem engin heimild sé til endurálagningar. Því til viðbótar sé  ákvörðunin  ekki í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga  nr. 37/1993. 

Í röksemdum sínum vísar kærandi m.a. til þess að í samræmi við ákvæði 1. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga hafi sveitarfélagið í febrúar 2016 lagt á fasteignaskatt fyrir árið 2016 á fasteign kæranda að Ásabrautar [ ]. Síðan hafi sveitarfélagið fellt þá ákvörðun niður og tekið nýja ákvörðun um álagningu fasteignaskatts á eignina í apríl 2016, án þess að veita kæranda rétt til andmæla. Kærandi telur að sveitarfélagið hafi ekki fylgt ákvæðum stjórnsýslulaga við endurálagninguna. Þannig hafi sveitarfélagið hvorki haft heimild til afturköllunar á fyrri ákvörðunar sinni, sbr. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 30/1993, né haft heimild til að breyta eða leiðrétta fyrri ákvörðun sína, sbr. 23. gr. stjórnsýslulaga.

Kærandi telur að Grímsnes- og Grafningshreppi hafi ekki verið heimilt að breyta álagningu fasteignaskatts eignarinnar þar sem sveitarfélagið hafi haft aðgang að öllum gögnum um eignina og nýtingu hennar þegar það tók ákvörðun um  upphaflega álagningu fasteignaskatts á eignina. Hafi upphaflega álagningin verið röng þá verði hún að eiga rót sína að rekja til rangra upplýsinga. Slíku sé ekki fyrir að fara  í því máli sem hér um ræðir þar sem öll gögn hafi legið fyrir þegar  upphafleg ákvörðun um álagningu fasteignaskatt á eignina var tekin. Kærandi telur að svo virðist sem sveitarfélagið hafi kastað til hendinni við fyrri álagningu og sveitarfélagið geti ekki látið slæleg vinnubrögð sín bitna á kæranda með ólögmætri endurálagningu fasteignaskatts.

Þá hafnar kærandi því að sveitarfélagið hafi gætt að því að álagning fasteignaskatts taki mið af nýtingu húsnæðisins. Nýting húsnæðisins hafi ekkert breyst frá upphaflegri álagningu fasteignaskattsins. Kærandi hafi gert áætlanir í samræmi við upphaflega álagningu enda ekki grunað að sveitarfélagið endurákvarðaði fasteignaskatt vegna eignarinnar í andstöðu við lög.

Með vísan til þess að sveitarfélagið hafi ekki vísað til heimildar eða tiltekins lagaákvæðis fyrir endurálagningu fasteignaskatts vegna Ásabrautar [ ] þegar öll gögn hafi verið fyrirliggjandi, sé ekki hægt að álykta annað en að umrædd ákvörðun hafi verið geðþóttaákvörðun sem beri að fella úr gildi.

Sjónarmið Grímsness- og Grafningshrepps
Í umsögn Grímsness- og Grafningshrepps, dags. 11. ágúst 2016, er rakin forsaga málsins og gerð sú krafa að öllum kröfum kæranda verði hafnað.

Sveitarfélagið tekur fram að svo virðist sem þess misskilningi gæti hjá kæranda að um endurálagningu fasteignaskatts sé að ræða og að ágreiningur málsins varði gjaldstofn, sem heyri undir úrskurðarvald Þjóðskrá Íslands, sbr. 1. málsl. 3. mgr. 4. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga. Ágreiningsefni málsins sé hins vegar hvort greiða skuli fasteignaskatt af sumarbústað kæranda samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga eða c-lið sömu greinar og hvort sveitarfélaginu hafi verið heimilt að breyta álagningarflokki sumarbústaðsins í apríl 2016. Að mati sveitarfélagsins sé yfirfasteignamatsnefnd bær til að fjalla um kæruna en sveitarfélagið gerir hins vegar athugasemdir við það hvort framsetning kærunnar sé svo óskýr að skoða þurfi það sérstaklega hvort vísa beri kærunni frá nefndinni þar sem  hún sé ekki tæk til efnismeðferðar. 

Að mati sveitarfélagsins er óumdeilt að kærandi hafi nýtt og nýti sumarbústað sinn til ferðaþjónustu í skilningi c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga allt árið um kring. Kærandi hafi staðfest í samskiptum sínum við sveitarfélagið að hann hafi fengið útgefið rekstrarleyfi í lok árs 2014 og í kæru er því ekki mótmælt að eignin sé nýtt til ferðaþjónustu, Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að það hafi ekki fengið upplýsingar um að eignin væri nýtt með þessum hætti fyrr en í byrjun apríl 2016. Kærandi hafi ekki upplýst sveitarfélagið  um þessa notkun eignar sinnar líkt og honum hefði verið rétt og skylt að gera og því hafi  sveitarfélaginu verið heimilt að breyta álagningarflokki eignarinnar í samræmi við notkun hennar og ákvarða fasteignaskatt vegna eignarinnar samkvæmt því.

Vísar sveitarfélagið til þess að samkvæmt lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga sé ráð fyrir því gert að heimilt sé að endurákvarða sveitarsjóðsgjöld, sbr. orðalag 2. mgr. 32. gr. laganna, og þá megi einnig í því sambandi benda á  úrskurð yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 4/2016. Þegar af þeirri ástæðu beri að hafna kröfum kæranda, enda byggi kæran fyrst og fremst á þeim misskilningi kæranda að fyrrgreind lög nr. 4/1995 heimili ekki endurákvörðun sveitarsjóðsgjalda.

Af hálfu sveitarfélagsins er því alfarið  hafnað að ákvörðun þess brjóti í bága við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi eigi engan rétt á að borga lægri fasteignaskatt af sumarbústað sínum en lög kveði á um enda nýti hann eignina til atvinnureksturs. Upplýsingar um þessa notkun eignarinnar hafi ekki legið fyrir fyrr en í byrjun apríl 2016. Sveitarfélagið hafi lagaheimild til endurálagningar samkvæmt lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.

Þá telur sveitarfélagið að það hafi einnig haft heimild til endurupptöku fyrri álagningar samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga, ef lagaheimild fyrir endurálagningu hefði ekki verið til staðar samkvæmt lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, enda ljóst að fyrri ákvörðun hafi ekki verið byggð á réttum upplýsingum um notkun eignar kæranda. Þá hafi kæranda verið tilkynnt um ákvörðun um endurálagningu með bréfi 15. apríl 2016. Að mati sveitarfélagsins hafi engin þörf verið á að leita eftir afstöðu kæranda til endurálagningarinnar áður en hún hafi verið tekin, enda byggir ákvörðun sveitarfélagsins á réttri notkun eignarinnar. Við þá ákvörðun hafi legið fyrir upplýsingar frá sýslumanni um útgefið rekstrarleyfi til gistingar í eigninni og þannig staðfesting á því  að sumarbústaðurinn skyldi sæta álagningu samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga. Þá hafi kæranda verið sjálfum fullkunnugt um þessa notkun eignar sinnar í atvinnurekstri sem og skyldu sína til að greiða hærri fasteignaskatt af þeim sökum. Kærandi hafi engu að síður látið hjá líða að upplýsa sveitarfélagið um þessa notkun. Í ljósi þess að umrædd eign sé nýtt til ferðaþjónustu allt árið um kring sé hin kærða ákvörðun heldur ekki of íþyngjandi fyrir kæranda.

Að mati sveitarfélagsins hafi álagning fasteignaskatts vegna Ásabrautar [ ] því að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga og byggi auk þess  á málefnalegum sjónarmiðum og gætt hafi verið fyllsta jafnræðis.

Athugasemdir kæranda vegna umsagnar sveitarfélagsins
Í bréfi kæranda, dags. 24. ágúst 2016, er áréttað að enginn ágreiningur sé um valdsvið yfirfasteignamatsnefndar til þess að fjalla um hvort umrædd ákvörðun sveitarfélagsins um breytingu á álagningu fasteignagjalda fyrir árið 2016 vegna Ásabrautar [ ] verði felld úr gildi og fyrri álagning verði látin standa óbreytt.  Kærandi hafnar því alfarið að  vísa beri kærunni frá vegna óskýrleika.  

Þá mótmælir kærandi því að álagningar- og skattlagningarhlutfall geti talist  óbreytt þegar litið sé til þess að skatthlutfall vegna álagningar fasteignaskatts á eignina hafi breyst úr 0,475% í 1,65%.

Kærandi segir það óumdeilt að hann hafi fengið rekstrarleyfi til gistinga í fasteigninni hinn 16. desember 2014 og hafi nýting eignarinnar í því sambandi legið fyrir frá þeim tíma. Því er mótmælt sem ósönnuðu að sveitarfélagið hafi ekki haft upplýsingar um þessi not fyrr en í apríl 2016. Vísar kærandi m.a. til þess að samkvæmt 10. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald skuli leyfisveitandi, sýslumaður í þessu tilviki, leita umsagnar viðkomandi sveitarstjórnar áður en leyfi samkvæmt lögunum er gefið út. Því sé harla ólíklegt að sveitarfélagið hafi ekki haft upplýsingar um fyrrgreinda notkun eignarinnar.  

Þá telur kærandi að mál yfirfasteignamatsnefndar nr. 4/2016 sé á engan hátt sambærilegt því máli sem hér um ræðir enda málin á margan hátt ólík. Í því máli hafi kærandi hins vegar fengið rétt til andmæla og ekki verði annað séð en að í því máli hafi verið fylgt málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar. Kæranda hafi ekki verið veittur réttur til andmæla né hafi ákvörðun sveitarfélagsins um breytta álagningu verið rökstudd. Málsmeðferð sveitarfélagsins hafi af þeim sökum verið ólögmæt og því  eigi að fella ákvörðun um breytingu fasteignagjalda úr gildi.

Af hálfu kæranda er því mótmælt að fyrir liggi lagaheimild til endurálagningar fasteignagjaldanna  og ákvörðun sveitarfélagsins því í  andstöðu við lögmætisreglu stjórnsýsluréttar. Þá áréttar kærandi að réttur hans til andmæla hafi ekki verið virtur og þá hafi ekki verið veittur rökstuðningur fyrir ákvörðuninni. Kærandi mótmælir því  að ákvæði 2. mgr. 32. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga heimili endurákvörðun fasteignagjalda þar sem fasteignagjöld falli ekki undir þá skilgreiningu að vera sveitarsjóðsgjöld í skilningi laganna með vísan til lögskýringargagna og samræmisskýringar við lög nr. 45/1987 um staðgreiðslugjöld opinberra gjalda.

Samkvæmt 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga skal leggja fasteignaskatta árlega á allar fasteignir. Að mati kæranda er engin heimilt til endurálagningar eða breytinga á  fasteignaskatti og  hafi sveitarfélaginu ekki tekist að sýna fram á hvaða lagaákvæði hafi verið byggt við slíka ákvörðun. Þannig hafi sveitarfélagið tekið geðþóttaákvörðun og því beri að fella ákvörðunina úr gildi vegna þess að hún hafi verið ólögmæt að öllu leyti. Þá beri sveitarfélaginu að endurgreiða kæranda oftekin fasteignagjöld sem og dráttarvexti. Að lokum byggir kærandi á því að umrædd ákvörðun sé einnig ólögmæt þar sem ekki hafi verið gætt að andmælarétti kæranda og þá hafi ekki verið veittur rökstuðningur í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Niðurstaða
Kærandi gerir kröfu um að endurálagning Grímsness- og Grafningshrepps frá því í apríl 2016 á fasteignagjöldum sumarbústaðar hans að Ásabraut [ ], Grímsnes- og Grafningshreppi, fnr. [ ], verði felld úr gildi þar sem lagaheimild fyrir ákvörðuninni hafi ekki verið fyrir hendi og því til viðbótar hafi málsmeðferð sveitarfélagsins við fyrrgreinda ákvörðun ekki verið í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993.   

Í umsögn Grímsness- og Grafningshrepps kom fram ábending um að yfirfasteignamatsnefnd tæki til skoðunar hvort framsetning kærunnar kynni að vera svo óskýr að vísa bæri henni frá nefndinni þar sem hún væri ekki tæk til efnismeðferðar. Að mati yfirfasteignamatsnefndar er ljóst að álitaefni máls þessa snúa að því hvort greiða skuli fasteignaskatt af sumarbústað kæranda samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga eða samkvæmt c-lið sömu greinar, og jafnframt hvort sú ákvörðun sveitarfélagsins að breyta álagningunni hafi stuðst við fullnægjandi lagaheimild svo og hvort málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga hafi verið brotnar við fyrrgreinda ákvörðun. Að mati yfirfasteignamatsnefndar verður ekki séð að þeir annmarkar séu á kærunni að nefndin geti ekki tekið afstöðu til fyrirliggjandi ágreinings í málinu og því engin ástæða til að vísa málinu frá nefndinni.

Kveðið er á um álagningu fasteignaskatts í II. kafla laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laganna er það í höndum sveitarstjórna að ákveða fyrir lok hvers árs skatthlutfall innan þeirra marka sem greinir í stafliðum a til c í ákvæðinu. Þá er það í höndum byggingarfulltrúa að ákveða hlutfallslega skiptingu milli gjaldflokka þegar það á við, sbr. 6. gr. sömu laga. Lagaheimild fyrir álagningu fasteignaskatts er því til staðar líkt og áskilið er samkvæmt ákvæðum 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar.

Ákvæði a-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 sem fjallar meðal annars um sumarbústaði er undantekningarákvæði eins og ákvæði b-liðar 3. mgr. 3. gr. laganna. Af orðalagi c-liðar 3. mgr. 3. gr. laganna verður ráðið að á allar aðrar fasteignir en þær sem sérstaklega eru taldar upp í stafliðum a og b verður lagður fasteignaskattur, allt að 1,32% af fasteignamati og lóðarréttindum. Í dæmaskyni eru þar meðal annars tilgreind „mannvirki sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu“. Þá er sveitarstjórnum veitt heimild í 4. mgr. 3. gr. laganna til að hækka um allt að 25% hundraðshluta álagningu á þær eignir sem falla undir a- og c-liði 3. mgr. 3. gr. laganna.

Hugtakið ferðaþjónusta er ekki skilgreint sérstaklega í lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga en það hefur hins vegar verið skilgreint af Hagstofu Íslands þannig að ferðaþjónusta teljist ekki sérstök atvinnugrein heldur samanstandi hún af mörgum atvinnugreinum. Þannig hefur almennt verið talið að til ferðaþjónustu teljist meðal annars hvers konar gistiþjónusta. Um sölu á gistingu gilda lög nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, sbr. a-lið 2. mgr. 1. gr. laganna. Gististaðir í skilningi laga nr. 85/2007 eru þeir staðir þar sem boðin er gisting til lengri eða skemmri tíma gegn endurgjaldi, svo sem á hótelum, gistiheimilum, í gistiskálum, íbúðum og sumarhúsum, með eða án veitinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Sala á gistingu er leyfisskyld, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2007.

Óumdeilt er að kærandi hefur nýtt fasteign sína að Ásabraut [ ], Grímsnes- og Grafningshreppi fyrir ferðaþjónustu í skilningi c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga og hefur hann til þess tilskilið rekstrarleyfi samkvæmt lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Því er ljóst að sveitarfélagið Grímsnes- og Grafningshreppur hefur heimild samkvæmt lögum nr. 4/1995 til að ákvarða fasteignaskatt af fasteign kæranda að Ásabraut [ ], samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 meðan fasteignin er nýtt til ferðaþjónustu. Ekki verður heldur séð af gögnum málsins að ágreiningur sé með málsaðilum um að fasteignin sé nýtt með fyrrgreindum hætti.

Ágreiningur máls þessa snýr fyrst og fremst að því  hvort sveitarfélaginu hafi verið heimilt að endurákvarða fasteignaskatt ársins 2016 í apríl það ár þar sem sveitarfélagið hafði þá þegar ákvarðað fasteignaskatt eignarinnar fyrir árið 2016 og þá samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Telur kærandi í því sambandi að ákvörðun sveitarfélagsins um breytta álagningu hafi ekki stuðst við lagaheimild og því brotið gegn og lögmætisreglu stjórnsýsluréttar. Því til viðbótar telur kærandi að brotið hafi verið gegn rétti hans til andmæla áður en ákvörðun var tekin um breytta álagningu og þá hafi rökstuðningur sveitarfélagsins fyrir ákvörðuninni verið ófullnægjandi.  

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga skal sveitarstjórn ákveða fyrir lok hvers árs skatthlutfall fasteignaskatts fyrir næsta ár. Ákvæðið kveður ekki á um að viðkomandi sveitarfélag þurfi fyrir lok hvers árs að ákveða í hvaða gjaldflokki viðkomandi fasteignir innan sveitarfélagsins eigi að vera enda ljóst að slíkt getur tekið breytingum eftir atvikum, s.s. með breyttri notkun fasteigna. Þá er kveðið á um það í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga að sveitarstjórn annist álagningu fasteignaskatts og skuli hún fara fram í fasteignaskrá. Þá segir jafnframt að sveitarstjórn geti falið sérstökum innheimtuaðila innheimtu skattsins. Ekki er kveðið nánar á um framkvæmd álagningarinnar.

Með hliðsjón af fyrrgreindum lagaákvæðum  verður að telja að sveitarfélag geti breytt flokkun fasteigna milli gjaldflokka samkvæmt stafliðum a til c 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 ef skilgreining eða notkun umræddrar fasteignar breytist innan gjaldársins. Þá verður heldur ekki séð að áskilnaður sé gerður í lögunum um að flokkun fasteigna milli gjaldflokka þurfi að ákveða fyrir lok hvers árs. Yfirfasteignamatsnefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu í fyrri úrskurðum sínum, sbr. m.a. mál nr. 1/2016, að lög nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga geri ráð fyrir því að heimilt sé að endurákvarða sveitarsjóðsgjöld, sbr. orðalag 2. mgr. 32. gr. laganna. Telja verður með hliðsjón af ákvæðum 1. og 2. mgr. 32. gr., sbr. 1. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga að heimild til endurákvörðunar taki m.a. til fasteignaskatts. Samkvæmt framansögðu verður ekki fallist á það með kæranda að lagaheimild til endurákvörðunar fasteignaskatts sé ekki fyrir hendi.

Ljóst er að sú ákvörðun Grímsnes- og Grafningshrepps að ákvarða fasteignaskatt af fasteign kæranda að Ásabraut [ ] samkvæmt c. lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 í stað a-liðar sömu lagagreinar eins og áður hafði verið gert, var íþyngjandi í garð kæranda. Gögn málsins gefa jafnframt til kynna að kærandi hafi fyrst fengið upplýsingar um breytta álagningu þegar hann fékk greiðsluseðil fasteignagjalda um miðjan apríl 2016 sem gaf til kynna verulega hækkun á fasteignagjöldum eignarinnar frá því sem áður hafði verið ákveðið. Engar skýringar virðast hafa fylgt greiðsluseðlinum og þá verður heldur ekki séð að kæranda hafi verið veittur réttur til andmæla áður en álagningunni var breytt enda er því ekki haldið fram af hálfu sveitarfélagsins heldur er á því byggt að ekki hafi verið þörf á að veita kæranda andmælarétt. Vísar sveitarfélagið til þess að það hafi verið óþarft þar sem breytt álagning hafi byggst á réttri notkun eignarinnar.   

Andmælareglu 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er ætlað að tryggja að aðili máls, sem er til meðferðar hjá stjórnvaldi, eigi þess kost að tryggja réttindi sín og hagsmuni með því að kynna sér gögn máls og málsástæður sem ákvörðun stjórnvaldsins muni byggjast á, leiðrétta fram komnar upplýsingar og koma að upplýsingum um málsatvik áður en stjórnvaldið tekur ákvörðun í máli hans. Frá fyrrgreindri meginreglu eru nokkrar undantekningar s.s. að afstaða og rök málsaðila liggi þegar fyrir í gögnum  málsins eða slíkt sé augljóslega óþarft.   

Fyrirliggjandi gögn málsins gefa til kynna að við málsmeðferð sveitarfélagsins hafi ekki verið gætt að andmælarétti kæranda. Það er mat yfirfasteignamatsnefndar að sveitarfélaginu hafi borið að tilkynna kæranda um fyrirhugaða ákvörðun og veita honum rétt til andmæla áður en ákvörðun var tekin. Hins vegar er til þess að líta að andmæli kæranda hafa í raun ekki snúið að efnisatriðum ákvörðunarinnar heldur eins og áður hefur komið fram að lögmæti endurálagningarinnar og málsmeðferð sveitarfélagsins. Eins og áður hefur komið fram hafa ekki komið athugasemdir af hálfu kæranda við að fasteignin sé nýtt til ferðaþjónustu og þá hefur ekki verið sýnt fram á að sveitarfélaginu hafi verið kunnugt um þá nýtingu fyrr en á árinu 2016. Kærandi hefur ekki lagt fram gögn sem gefa til kynna að ákvörðun sveitarfélagsins um að fasteign hans falli undir c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 sé efnislega röng. Því verður að telja að ekki hafi verið sýnt fram á það að þeir annmarkar sem voru á meðferð málsins hjá Grímsnes- og Grafningshreppi hafi haft áhrif á efnislega niðurstöðu málsins en samkvæmt meginreglum stjórnsýsluréttar verður ákvörðun ekki breytt eða ógilt ef fyrir liggur að þeir annmarkar sem eru á ákvörðuninni hafi ekki áhrif á efni hennar. Því til viðbótar hefur almennt verið talið að þegar lægra sett stjórnvald hefur brotið gegn andmælareglu stjórnsýslulaga og sú ákvörðun síðan verið kærð til æðra stjórnvalds, sem veitir kæranda andmælarétt um alla þætti máls, sé brotið leiðrétt með málsmeðferð og úrskurði hins æðra stjórnvalds, sbr. dóm Hæstaréttar frá 19. febrúar 2004 í máli nr. 323/2003. Fyrir liggur að kærandi hefur við meðferð málsins hjá yfirfasteignamatsnefnd haft tækifæri til að koma að sjónarmiðum sínum varðandi alla þætti málsins.    

Kærandi hefur í kæru sinni einnig byggt á því að rökstuðningur sveitarfélagsins fyrir hinni kærðu ákvörðun hafi ekki verið í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með tölvupóstum kæranda til sveitarfélagsins í lok apríl og byrjun maí 2016 óskaði kærandi eftir rökstuðningi sveitarfélagsins fyrir þeirri ákvörðun að endurákvarða fasteignaskatt vegna Ásabrautar [ ]. Með bréfi sveitarfélagsins til kæranda, dags. 4. maí 2016, var skriflegur rökstuðningur veittur og verður ekki séð að sá rökstuðningur hafi verið ófullnægjandi eða varði ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. 

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið eru álögð fasteignagjöld vegna sumarbústaðar að Ásabraut [ ], Grímsnes- og Grafningshreppi, fnr. [ ], árið 2016 staðfest.

Úrskurðarorð

Álögð fasteignagjöld vegna sumarbústaðar að Ásabraut [ ], Grímsnes- og Grafningshreppi, fnr. [ ], árið 2016, eru staðfest.

 

__________________________________

Hulda Árnadóttir

 

 ______________________________           ________________________________

   Ásgeir Jónsson                                  Björn Jóhannesson 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum