Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 3/2016

Hinn 19. október 2016 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 3/2016:

Beiðni um endurupptöku
hæstaréttarmáls nr. 356/2016;

Íslandsbanki hf.

gegn

Hlédísi Sveinsdóttur

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

I. Beiðni um endurupptöku

Með erindi, dagsettu 13. júlí 2016, fór Hlédís Sveinsdóttir þess á leit að hæstaréttarmál nr. 356/2016, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 14. júní 2016, yrði endurupptekið. Með bréfi, dagsettu 8. september 2016, sendi endurupptökubeiðandi nefndinni viðbótargagn og frekari röksemdir. Með bréfi endurupptökunefndar, dagsettu 28. sama mánaðar, var endurupptökubeiðni ásamt fylgigögnum send gagnaðila og honum gefinn kostur á að koma á framfæri skriflegri greinargerð um viðhorf sín til beiðnarinnar, sbr. 2. mgr. 168. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Með bréfi, dagsettu 4. október síðastliðinn, sendi gagnaðili skriflega greinargerð um viðhorf sín. Með bréfi, dagsettu 10. október 2016, sendi endurupptökubeiðandi frekari röksemdir og viðbótargögn. Þessi gögn voru kynnt gagnaðila og skilaði hann umsögn vegna þeirra með bréfi, dagsettu 17. sama mánaðar. Endurupptökubeiðanda var kynnt umsögn gagnaðila og sendi hún frekari athugasemdir 18. október 2016. Þessar athugasemdir voru jafnframt kynntar gagnaðila.

Með vísan til 34. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Ásgerður Ragnarsdóttir, Björn L. Bergsson og Þórdís Ingadóttir.

II. Málsatvik

Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 356/2016 var felldur úr gildi úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur frá 18. apríl 2016 þar sem aðfarargerð sýslumanns, sem lauk með árangurslausu fjárnámi hjá endurupptökubeiðanda, var felld úr gildi. Endurupptökubeiðandi, eiginmaður hennar og annar maður gengust í sjálfskuldarábyrgð fyrir skuld samkvæmt veðskuldabréfi sem jafnframt var tryggt með veði í fasteign endurupptökubeiðanda og eiginmanns hennar. Vegna vanskila bréfsins var fasteignin seld nauðungarsölu 14. mars 2012 og var kaupandi gagnaðili, Íslandsbanki hf., sem fékk aðeins úthlutað að hluta upp í kröfu sína. Gagnaðili lét fasteignasöluna Hraunhamar verðmeta fasteignina og lagði það verðmat, 12.000.000 krónur, til grundvallar í uppgjöri í samræmi við 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Gagnaðili krafðist fjárnáms hjá eiginmanni endurupptökubeiðanda sem lauk án árangurs þrátt fyrir andmæli hans og framlagningu verðmats frá Fasteignamarkaðnum, sem hann aflaði, en samkvæmt því mati var verðmæti fasteignarinnar metið mun hærra eða 40.000.000 krónur miðað við mars 2012. Undir rekstri dómsmálsins óskaði eiginmaður endurupptökubeiðanda eftir því að dómkvaddur yrði sérfróður maður til að meta verðmæti fasteignar hans og endurupptökubeiðanda. Dómkvaddi matsmaðurinn lauk vinnu við matsgerð 11. júlí 2013 og taldi hæfilegt söluverð fasteignarinnar vera 13.500.000 krónur miðað við júlí 2013. Matsgerðin var ekki lögð fram í málinu. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 21. apríl 2015 var komist að þeirri niðurstöðu að eiginmanni endurupptökubeiðanda hefði ekki tekist að sýna fram á að ekki væri unnt að leggja mat fasteignasölunnar Hraunhamars til grundvallar uppgjöri aðila. Sá úrskurður var ekki kærður til Hæstaréttar af hálfu eiginmanns endurupptökubeiðanda. Kröfu hans um endurupptöku þess dómsmáls á grundvelli 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála var hafnað af endurupptökunefnd 3. mars 2016.

Fyrrnefnd matsgerð dómkvadds matsmanns var lögð fram af hálfu gagnaðila í hæstaréttarmáli nr. 356/2016 sem endurupptökubeiðni lýtur að. Hæstiréttur taldi í dómi sínum niðurstöðu matsgerðarinnar samrýmast mati fasteignasölunnar Hraunhamars sem lagt hafði verið til grundvallar í uppgjöri við eiginmann endurupptökubeiðanda. Í dómi Hæstaréttar var jafnframt tekið fram að samkvæmt 4. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála hefði dómur fullt sönnunargildi um þau málsatvik sem í honum greindi þar til hið gagnstæða væri sannað. Hæstiréttur taldi úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá 21. apríl 2015 hafa fullt sönnunargildi um málsatvik þar til hið gagnstæða væri sannað, enda þótt endurupptökubeiðandi hafi ekki verið aðili að því dómsmáli. Vísað var til þess að endurupptökubeiðandi hafi teflt fram verðmati Fasteignamarkaðarins, þar sem áætlað söluverð eignarinnar í mars 2012 sé tilgreint 40.000.000 króna. Í matinu sé tekið fram að það tæki mið af núverandi markaðsaðstæðum og gengið væri út frá því að gatnagerðargjöld væru greidd. Að framangreindu virtu, og með vísan til 4. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála, taldi Hæstiréttur að verðmæti fasteignarinnar á uppboðsdegi hafi verið 12.000.000 króna. Þannig hafi gagnaðili fullnægt þeirri sönnunarbyrði sem á honum hvíldi eftir 1. mgr. 57. gr. laga um nauðungarsölu, andstætt því sem héraðsdómur hafði byggt á. Öðrum málsástæðum endurupptökubeiðanda var hafnað sem órökstuddum. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi. Einn dómari Hæstaréttar skilaði sératkvæði þar sem talið var að staðfesta ætti hinn kærða úrskurð. Í sératkvæðinu var meðal annars byggt á því að þar sem fyrir lægju tvö afar ólík möt fasteignasala á virði fasteignarinnar, hafi gagnaðila sem fjármálafyrirtæki borið að tryggja sér fullnægjandi sönnun um verðgildi fasteignarinnar við samþykki boðs. Slíkt hafi hann ekki gert og því hafi hann ekki axlað sönnunarbyrði sína samkvæmt ákvæði 1. mgr. 57. gr. laga um nauðungarsölu.

III. Grundvöllur beiðni

Endurupptökubeiðandi telur skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála vera fullnægt til endurupptöku málsins. Í fyrsta lagi byggir endurupptökubeiðandi kröfu sína um endurupptöku á því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og endurupptökubeiðanda verði ekki kennt um, sbr. a-lið 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála. Telur endurupptökubeiðandi að verðmat Fasteignamarkaðarins hafi ekki verið gallað. Þá telur endurupptökubeiðandi að auglýst söluverð fasteignarinnar, löngu eftir að uppboðsdagur er liðinn, hafi ekkert sönnunargildi varðandi markaðsverðmæti hennar á uppboðsdegi í mars 2012. Endurupptökubeiðandi telur matsgerðina sem Hæstiréttur vísar til ekki hafa neitt sönnunargildi í málinu. Endurupptökubeiðandi hafi ekki átt aðild að matsgerðinni og hennar hafi ekki verið aflað undir rekstri þessa máls, sbr. ákvæði IX. kafla laga um meðferð einkamála. Þá telur endurupptökubeiðandi forsendur matsins rangar. Að auki telur endurupptökubeiðandi að umrætt mat sé of seint fram komið af hálfu gagnaðila og að tilvísun til 4. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála hafi falið í sér nýja málsástæðu gagnaðila fyrir Hæstarétti. Endurupptökubeiðandi telur jafnframt að ákvæðið eigi ekki við þar sem enginn ágreiningur sé á milli aðila um málsatvik. Hvað varðar skilyrði a-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála, þá vísar endurupptökubeiðandi jafnframt til þess að skort hafi á rökstuðning fyrir niðurstöðu meirihluta Hæstaréttar, að rétturinn hafi klofnað í afstöðu sinni til málsins og að niðurstaða réttarins hafi ekki legið fyrir innan lögboðins frests.

Í öðru lagi byggir endurupptökubeiðandi kröfu sína um endurupptöku á því að tveir dómarar málsins í Hæstarétti hafi verið vanhæfir til úrlausnar þess, sbr. b-lið 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála. Draga megi óhlutdrægni eins dómara Hæstaréttar í efa vegna skyldleika og vinskapar við þáverandi stjórnarformann ISB Holding sem hafi farið með 95% hlutafjár í gagnaðila og sem hafi jafnframt lýst persónulega kröfu í þrotabú Frjálsrar Fjölmiðlunar en faðir og bróðir endurupptökubeiðanda hafi komið að rekstri þess félags. Þá sé fyrir hendi mikil óvild umrædds stjórnarformanns í garð endurupptökubeiðanda. Umræddur dómari Hæstaréttar hafi jafnframt dæmt í máli gegn föður og bróður endurupptökubeiðanda vegna Frjálsrar Fjölmiðlunar. Þar að auki megi draga óhlutdrægni annars dómara réttarins í efa þar sem hann hafi verið dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur og úthlutað umræddu máli gegn föður og bróður endurupptökubeiðanda til hins fyrrnefnda dómara.  

Að lokum rekur endurupptökubeiðandi á hvern hátt stórfelldir hagsmunir hennar séu í húfi, sbr. c-lið 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála. Vísað er til þess að gagnaðili hafi meðal annars þingfest gjaldþrotamál á hendur endurupptökubeiðanda fyrir Héraðsdómi Reykjaness og til grundvallar því máli sé hin umdeilda aðfarargerð sem staðfest var með dómi Hæstaréttar í máli nr. 356/2016.

Endurupptökubeiðandi setur fram þá kröfu að fallist endurupptökunefnd á beiðni um endurupptöku, þá falli niður réttaráhrif dóms á meðan málið er rekið.

Með bréfi, dagsettu 8. september 2016, lagði endurupptökubeiðandi fram viðbótargagn, dóm Hæstaréttar í máli nr. 520/2016 sem kveðinn var upp 6. september síðastliðinn. Telur endurupptökubeiðandi málið hliðstætt sínu þar sem um sé að ræða deilu um lögmæti aðfarargerðar á hendur eiginmanni hennar, á grundvelli sama veðskuldabréfs og meintrar eftirstæðrar kröfu í kjölfar nauðungarsölu á fasteign þeirra. Með dómi Hæstaréttar sé aðfarargerð hjá eiginmanni hennar felld úr gildi á grundvelli þess að mikill og óútskýrður munur sé á verðmötum. Þá hafi matsgerðin frá 11. júlí 2013 hafi verið talin fela í sér nýja málsástæðu um hvert markaðsverð fasteignarinnar hafi verið þegar hún var seld nauðungarsölu og efni hennar því ekki komið til álita þegar leyst var úr málinu. Endurupptökubeiðandi telur að endurupptaka eigi málið með vísun til sönnunargagna og ekki síst með hliðsjón af samdóma niðurstöðu þriggja dómara Hæstaréttar í máli nr. 520/2016 og sératkvæðis eins dómara í máli nr. 356/2016, þar sem þeir séu sammála um meginatriði máls eins og rakið er í beiðni hennar um endurupptöku.

Með bréfi, dagsettu 10. október síðastliðinn, lagði endurupptökubeiðandi fram frekari viðbótargögn. Gögn þessi varða þriðja ábyrgðarmanninn á veðskuldabréfi því sem málið varðar. Því er haldið fram að gagnaðili hafi leyst umræddan ábyrgðarmann undan ábyrgð með þeim hætti að staða endurupptökubeiðanda hafi orðið verri en hún var í andstöðu við 2. mgr. 10. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Byggt er á því að gagnaðili hafi samþykkt að rýra gildi trygginga og að fjárnám hafi farið fram hjá umræddum ábyrgðarmanni til málamynda. Þá hafi gagnaðili vísvitandi leynt umræddum gögnum við meðferð málsins fyrir dómi.

Með bréfi, dagsettu 18. október 2016, áréttaði endurupptökubeiðandi fyrri sjónarmið sín og rökstuddi þau frekar.

IV. Viðhorf gagnaðila

Með bréfi, dagsettu 4. október 2016, lét gagnaðili umsögn í té og mótmælti að skilyrði a til c-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála væru uppfyllt, og mótmælti málatilbúnaði endurupptökubeiðanda. Með bréfi, dagsettu 17. október 2016, mótmælti gagnaðili að gögn sem endurupptökubeiðandi lagði fram 10. október 2016 gætu leitt til endurupptöku málsins.

V. Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er leyst úr máli þessu á grundvelli XXVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í 1. mgr. 168. gr. laganna segir að skriflegri beiðni um endurupptöku skuli beint til endurupptökunefndar og í henni skuli rökstyðja ítarlega þær ástæður sem þykja standa til endurupptöku og skuli gögn fylgja henni eftir þörfum.

Í 1. mgr. 169. gr. laga um meðferð einkamála segir að endurupptökunefnd geti leyft samkvæmt umsókn aðila að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 167. gr. laganna. Skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála fyrir endurupptöku eru eftirfarandi:

a. sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,
b. sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,
c. önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.

Til að fallist verði á endurupptöku þurfa öll framangreind skilyrði að vera uppfyllt.

Af málatilbúnaði endurupptökubeiðanda verður ráðið að hún er ósammála forsendum Hæstaréttar fyrir niðurstöðu réttarins um verðmæti fasteignar sem seld var nauðungarsölu, þar á meðal um sönnunargildi mats dómskvadds matsmanns frá 11. júlí 2013. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 356/2016 er tekin skýr afstaða til sömu gagna og sjónarmiða og byggt er á í endurupptökubeiðni hvað varðar verðmat á umræddri fasteign. Kröfum endurupptökubeiðanda var hafnað þar sem Hæstiréttur taldi úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í ágreiningsmáli gagnaðila og eiginmanns endurupptökubeiðanda, sem fjallaði um sömu gögn og endurupptökubeiðandi byggði á, hafa fullt sönnunargildi um þau málsatvik sem í honum greindi þar til hið gagnstæða væri sannað. Í forsendum réttarins er talið að niðurstaða dómkvadds matsmanns frá 11. júlí 2013 samrýmist því mati sem byggt var á í þeim úrskurði. Taldi rétturinn það verðmat, sem endurupptökubeiðandi vísaði til, ekki hagga þeirri niðurstöðu að miða bæri við að verðmæti fasteignarinnar hefði verið 12.000.000 krónur á uppboðsdegi. Þar sem Hæstiréttur tók afstöðu til málatilbúnaðar endurupptökubeiðanda í þessum efnum er ekki fullnægt skilyrði a-liðar 1. mgr. 167. gr. laganna um að sterkar líkur séu leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar fyrir dómi. Þær málsástæður endurupptökubeiðanda að 4. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála hafi verið ný málsástæða gagnaðila fyrir Hæstarétti og að ákvæðið eigi jafnframt ekki við þar sem enginn ágreiningur sé á milli aðila um málsatvik í málinu, fullnægja ekki heldur skilyrði a-liðar 1. mgr. 167. gr. laganna. Í nefndu ákvæði er sönnunargildi dóma um þau málsatvik sem í þeim greinir slegið föstu nema hið gagnstæða sé sannað, en slík lagarök lúta ekki málsforræði aðila.

Endurupptökubeiðandi leggur fram gögn sem hún telur sýna að tveir dómarar Hæstaréttar hafi verið vanhæfir við meðferð málsins, sbr. b-lið 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála um að sterkar líkur séu leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum. Það vanhæfi er sagt grundvallast á skyldleika og vinskap eins dómarans við þáverandi stjórnarformann félags, sem hafi farið með 95% hlutafjár í gagnaðila, og hafi lýst persónulega kröfu í þrotabú Frjálsrar Fjölmiðlunar, en faðir og bróðir endurupptökubeiðanda hafi komið að rekstri þess félags. Þá sé fyrir hendi mikil óvild umrædds stjórnarformanns í garð endurupptökubeiðanda. Loks hafi umræddur dómari dæmt sem héraðsdómari í máli gegn föður og bróður endurupptökubeiðanda vegna umrædds félags. Einnig mætti draga óhlutdrægni annars dómara réttarins í efa þar sem hann hafi verið dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur og sem slíkur úthlutað umræddu máli gegn föður og bróður endurupptökubeiðanda til fyrrnefnda dómarans. Framangreind meint tengsls eins dómara og fyrri störf beggja dómara í alls óskyldum málum eru ekki til þess fallin að draga óhlutdrægni þeirra með réttu í efa. Gögn og staðhæfingar endurupptökubeiðanda um meint vanhæfi dómara fullnægja því ekki áskilnaði laga, að vera sterkar líkur hafi verið leiddar að því að ný gögn muni leiða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum, sbr. b-lið 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála.

Með bréfi, dagsettu 8. september 2016, lagði endurupptökubeiðandi fram endurrit dóms Hæstaréttar í máli nr. 520/2016 sem kveðinn var upp 6. september síðastliðinn. Telur endurupptökubeiðandi málið hliðstætt því máli sem óskað er endurupptöku á þar sem um sé að ræða lögmæti aðfarargerðar á hendur eiginmanni hennar, á grundvelli sama veðskuldabréfs og meintrar eftirstæðrar kröfu í kjölfar nauðungarsölu á fasteign þeirra. Með dómi Hæstaréttar hafi aðfarargerð hjá eiginmanni hennar verið felld úr gildi á grundvelli þess að mikill og óútskýrður munur sé á verðmötum. Þá taldi rétturinn að í matsgerð frá 11. júlí 2013 hafi verið fólgin ný málsástæða um hvert markaðsverð fasteignarinnar hafi verið þegar hún var seld nauðungarsölu og að efni hennar komi því ekki til álita við úrlausn málsins. Endurupptökubeiðandi telur að með vísun til þessa dóms Hæstaréttar beri að verða við beiðni hennar um endurupptöku. Skilyrði endurupptöku einkamála eru talin upp með tæmandi hætti í 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála. Ljóst er að dómur Hæstaréttar í framangreindu máli varðar verðmat á sömu fasteign og fjallað var um í dómi Hæstaréttar í máli nr. 356/2016. Hins vegar er endurupptökubeiðandi ekki aðili hæstaréttarmáls nr. 520/2016, heldur eiginmaður hennar. Einnig ber að líta til þess að ólík sönnunargögn voru lögð til grundvallar í málunum. Í niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 520/2016 var gerð skýr grein fyrir því að matsgerð hins dómkvadda matsmanns frá 11. júlí 2013 hafi verið tækt sönnunargagn í fyrri dómi réttarins nr. 356/2016 sem beiðni um endurupptöku lýtur að. Vísað var til þess að ekki yrði annað ráðið af málsgögnum en að gagnaðili hefði fyrst fengið matsgerðina afhenta eftir að úrskurður hefði verið kveðinn upp í héraði og verið heimilt að leggja hana fram í Hæstarétti í máli nr. 356/2016. Í máli nr. 520/2016 hafi gagnaðili hins vegar ekki lagt matsgerðina fram í héraði áður en málið var dæmt þótt hann hefði áður fengið hana afhenta. Samkvæmt þessu var gagnaðila talið heimilt að byggja á matsgerðinni í því máli sem endurupptökubeiðni varðar, en ekki í því máli sem lauk með dómi Hæstaréttar 6. september 2016. Vegna þessarar ólíku aðstöðu hvað gildi matsgerðarinnar varðar taldi Hæstiréttur niðurstöðu réttarins í máli nr. 356/2016 ekki hafa sama gildi við úrlausn máls nr. 520/2016 og hún ella kynni að hafa haft. Í ljósi þessa verður ekki talið að dómur Hæstaréttar í máli nr. 520/2016 feli í sér að sterkar líkur hafi verið leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós eða að ný gögn muni leiða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum í skilningi 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála.

Með bréfi, dagsettu 10. október 2016, lagði endurupptökubeiðandi fram frekari gögn sem varða þriðja ábyrgðarmanninn á því veðskuldabréfi sem hún og eiginmaður hennar gengust í sjálfskuldarábyrgð á. Byggt er á því að umrædd gögn styðji þá röksemd, sem haldið var fram í héraði og fyrir Hæstarétti, að gagnaðili hafi samþykkt að rýra gildi trygginga með þeim hætti að óumdeilt sé að staða endurupptökubeiðanda sé verri en hún var, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Tekið var fram í dómi Hæstaréttar að endurupptökubeiðandi hefði ekki fært haldbær rök fyrir þessari málsástæðu og var henni hafnað. Með hliðsjón af niðurstöðu réttarins og röksemdum endurupptökubeiðanda, sem og þeim gögnum sem hún vísar til, verður hvorki talið að sterkar líkur hafi verið leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós og aðila verði ekki um það kennt né að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum, sbr. 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála.

Að framansögðu er ljóst að skilyrðum a- og b-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála er ekki fullnægt og skortir því á að öllum skilyrðum a til c liða 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála sé fullnægt eins og áskilið er. Gerist því ekki þörf á að fjalla um c-lið 1. mgr. 167. gr. laganna. Er beiðni um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 356/2016 því ekki á rökum reist og henni því hafnað.

Úrskurðarorð

Beiðni Hlédísar Sveinsdóttur um endurupptöku dóms Hæstaréttar í máli nr. 356/2016, sem kveðinn var upp 14. júní 2016, er hafnað.


Björn L. Bergsson formaður

Ásgerður Ragnarsdóttir

Þórdís Ingadóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn