Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 82/2016 Úrskurður 14. október 2016

Mál nr. 82/2016                     Eiginnafn: Eir

 


                                   

 

Hinn 14. október 2016 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 82/2016 en erindið barst nefndinni 10. október.

 

Eiginnafnið Eir er ekki á mannanafnaskrá sem karlmannsnafn. Það er hins vegar á þeirri skrá sem kvenmannsnafn. Hefur því verið óskað afstöðu mannanafnanefndar um hvort nafnið fullnægi skilyrðum laga um mannanöfn nr. 45/1996 til að vera tekið á skrána sem karlmannsnafn.

Til þess að fallist sé á eiginnafn og það fært á mannanafnaskrá verður öllum skilyrðum 5. gr. laga um mannanöfn að vera fullnægt.

Í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 er kveðið á um að stúlku skuli gefa kvenmannsnafn og dreng skuli gefa karlmannsnafn. Í þessu ákvæði felst ekki bann við því að nafn sé hvorttveggja karlmannsnafn og kvenmannsnafn. Það á til dæmis við um eiginnöfnin Blær, Auður og Júní. Ef nafn telst hins vegar einvörðungu vera annaðhvort karlmannsnafn eða kvenmannsnafn í íslensku máli leiðir hins vegar af 2. mgr. 5. gr. að slíkt nafn má ekki gefa einstaklingi af gagnstæðu kyni.

Kvenmannsnafnið Eir er fornt ásynjunafn og er það talið vera skylt sögninni eira ‚hlífa, vernda‘. Karlmannsnafnið Eir er hins vegar, samkvæmt því sem Guðrún Kvaran segir í Nöfnum Íslendinga, talið vera leitt af orðinu eir ‚málmur‘. Nöfnin eru því ólíks uppruna þótt þau séu samhljóma og ekkert sem stendur í vegi fyrir því þessi samhljóma nöfn séu bæði notuð, annað er þá karlmannsnafn en hitt kvenmannsnafn.

 

Samkvæmt gögnum Þjóðskrár þá bera fjórir karlar, sem uppfylla skilyrði vinnulagsreglna mannanafnanefndar varðandi hefð, eiginnafnið Eir í þjóðskrá og er sá elsti fæddur 1975. Nafnið kemur ekki fyrir í manntölum frá 1703–1920.

Eiginnafnið Eir (kk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Eirs, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

 

 

 

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Eir (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn