Hoppa yfir valmynd
21. nóvember 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Vel heppnað málþing um Notendastýrða persónulega aðstoð(NPA) - leið til sjálfstæðs lífs.

Velferðarráðuneytið og verkefnisstjórn um NPA stóðu fyrir málþingi sl. fimmtudag undir yfirskriftinni notendastýrða persónulega aðstoð – leið til sjálfstæðs lífs.  Það er greinilegt að áhuginn á efninu er  mikill því um 160 manns komu og hlýddu á erindi fjölmargra aðila um NPA frá hinum ýmsu sjónarhornum. Markmið málþingsins var að upplýsa notendur, aðstoðarfólk og starfsmenn sveitarfélaga um stöðu samstarfsverkefnisins nú þegar líður að lokum seinni áfanga þess. Á þinginu var framvinda verkefnisins rýnd og reynt að lesa í það hvað hefur gengið vel og hvað þarf að gera betur til þess að það geti þróast í samræmi við markmið. 

Þinginu var skipt upp í þrjá kafla þ.e. almennar áherslur, hver er reynslan af NPA og loks hvað væri framundan. Í fyrsta kafla undir almennum áherslum var m.a. komið inn á  þá staðreynd að velferðarþjónustan stendur frammi fyrir umbreytingu ef hugmyndir um NPA ganga eftir. NPA miðstöðin kynnti  hugmyndafræðina um sjálfstætt líf og helstu þætti í NPA. Síðan var fjallað um siðferðileg álitamál við framkvæmd NPA. Í öðrum kafla var fjallað um reynsluna af verkefninu og þar komu fram á sjónarsviðið fulltrúar notenda, aðstoðarfólks, umsýsluaðila, sveitarfélaga og stéttarfélagsins Eflingar. Í þriðja kafla var síðan fjallað um verkefnin framundan. Verkefnisstjórnin gerði grein fyrir þeim verkfærum sem nú væru komin í verkfærakassann. Síðan var fjallað um mikilvægi vinnuverndar, aðkomu heilbrigðis- og skólakerfisins að NPA. Að lokum gerðu þingmenn og fulltrúar fjögurra flokka sem sæti eiga á Alþingi grein fyrir afstöðu sinni til NPA. Loks sleit fulltrúi notenda málþinginu.

Þær slæður sem voru kynntar á málþinginu verða gerðar aðgengilegar á heimasíðu NPA á næstu dögum. Vinnugögn verkefnisstjórnarinnar verða aðgengileg eftir að þau hafa verið yfirfarin eftir þær ábendingar sem komu fram á málþinginu. Verkefnisstjórn NPA mun síðan skila áfangaskýrslu um framvindu verkefnisins í byrjun desember n.k. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum