Hoppa yfir valmynd
25. nóvember 2016 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Útreikningur á framhaldsskólaeiningum fyrir starfsþjálfun

Svör við fyrirspurnum frá framhaldsskólum um hvernig haga skuli útreikningum á framhaldsskólaeiningum fyrir starfsþjálfun nemenda.

Mynd-12
Mynd-12

Framhaldsskólum er gert að setja sér námsbrautalýsingar þar sem gerð er grein fyrir náminu í heild þ.e. bæði í skóla og á vinnustað þ.m.t. starfsþjálfun. Í 15. gr. laga um framhaldsskóla nr. 92/2008, segir: Eitt námsár, sem mælir alla ársvinnu nemanda með fullnaðarárangri, veitir 60 einingar. Er þá miðað við að árlegur fjöldi vinnudaga nemenda sé að lágmarki 180 dagar.

Aðalnámskrá framhaldsskóla skilgreinir muninn á vinnustaðanámi og starfsþjálfun. Þegar um er að ræða styttri tímabil á vinnustað í bland við skólanám er nám skilgreint sem vinnustaðanám þar sem nemanda er jafnan veitt markvissari og skipulagðari fræðsla, og meiri leiðsögn og eftirlit, en þegar um starfsþjálfun er að ræða. Þá skal miðað við að ein framhaldsskólaeining samsvari 18 til 24 klukkustunda vinnu meðalnemanda, þ.e. þriggja daga vinnu nemenda ef gert er ráð fyrir sex til átta klukkustunda vinnu að meðaltali á dag eftir eðli viðfangsefna og afkastagetu nemenda.

Í starfsþjálfun fá nemendur tækifæri til að þjálfa frekar verkþætti og verkferla sem þeir hafa fengið kennslu í. Gert ráð fyrir að þeir sýni meiri ábyrgð og sjálfstæði í vinnubrögðum en þegar um vinnustaðanám er að ræða.

Ráðuneyti leggur til að starfsþjálfun, sem skipulögð er sem eitt skólaár, sé metin sem 60 framhaldsskólaeiningar en sé starfsþjálfun skipulögð sem eitt almanaksár sé hún metin sem 80 framhaldsskólaeiningar.

Menntamálastofnun hefur verið falið að koma þessum upplýsingum á framfæri til þeirra sem málið varðar.

Úr aðalnámskrá framhaldsskóla (bls. 40)

6.3 Starfsnám

Starfsnám fer yfirleitt bæði fram í skóla og á vinnustað. Stór þáttur námsins felur í sér að nemendur þjálfist í að beita mismunandi aðferðum og verklagi. Þjálfunin fer annars vegar fram í verklegu sérnámi skóla undir leiðsögn kennara og hins vegar í vinnustaðanámi eða starfsþjálfun á vinnustað.

Um starfsnám á vinnustað eru ýmist notuð hugtökin vinnustaðanám eða starfsþjálfun. Hér er gengið út frá því að í vinnustaðanámi séu alla jafna gerðar meiri kröfur um markvissa, skipulagða fræðslu, leiðsögn og eftirlit en þegar um starfsþjálfun er að ræða.

Í starfsþjálfun er lögð áhersla á að nemendur fái tækifæri til að þjálfa frekar verkþætti og verkferla sem þeir hafa þegar fengið kennslu í. Það er því gert ráð fyrir að þeir geti sýnt meiri ábyrgð og sjálfstæði í vinnubrögðum en þegar um vinnustaðanám er að ræða.

Vinnustaðanám og starfsþjálfun veita nemendum mikilvæg tækifæri til að hagnýta þekkingu sína og leikni og öðlast þar með hæfni til þátttöku í atvinnulífinu. Til að stuðla að markvissu vinnustaðanámi og starfsþjálfun á vinnustað er lögð áhersla á notkun námsferilsbóka. Um vinnustaðanám og starfsþjálfun á vinnustað eru gerðir samningar í samræmi við gildandi lög og reglugerðir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum