Hoppa yfir valmynd
28. desember 2016 Dómsmálaráðuneytið

Greina á leiðir vegna aðhalds með lögreglu

Kanna á og greina leiðir í því skyni að veita lögreglu aðhald við rannsókn mála svo sem við öflun og meðferð leyfa til símhlerana samkvæmt bráðabirgðaákvæði í breytingu á lögum um meðferð sakamála sem Alþingi samþykkti í september. Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis lagði til þessa breytingu í kjölfar umræðu á þinginu um frumvarpið með þeim rökum að þörf væri á lýðræðislegu eftirliti með þeim sem framkvæmt hafi símhleranir.

Breytingin á lögum um meðferð sakamála sem samþykkt var sneri að því að skýra betur og þrengja þau skilyrði sem uppfylla þarf til að réttlæta beitingu hlerunar og upptöku símtala. Einnig var breytt framkvæmd þessara úrræða m.a. með því að þegar dómara berst krafa um símhlerun skuli hann skipa lögmann sem gæti hagsmuna þess sem hlerunin beinist að.

Í nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar við umfjöllun um frumvarpið segir að þar sem símhlerunum hafi verið misbeitt í pólitískum tilgangi væri þörf á lýðræðislegu eftirliti og mikilvægt að þjóðkjörnir fulltrúar kæmu með einhverjum hætti að þess háttar eftirliti. Nærtækast væri að Alþingi kæmi þar að til dæmis með því að velja fulltrúa úr sínum hópi, bæði stjórn og stjórnarandstöðu.

Í bráðabirgðaákvæði lagabreytingarinnar sem nefndin lagði til og var samþykkt segir að ráðherra skuli láta kanna og greina leiðir í því skyni að veita lögreglu aðhald við rannsókn mála, svo sem öflun og meðferð fjarskiptaupplýsinga, símahlustun, upptöku á hljóðum og merkjum og ljósmyndun og fleira. Þá segir að hafa skuli hliðsjón af fyrirkomulagi erlendis við þessa greiningarvinnu og að fulltrúar þingflokka skuli hafa aðkomu að þessari vinnu og þeir upplýstir um hana stig af stigi. Einnig gerir ákvæðið ráð fyrir að tillögur verði kynntar Alþingi í lok árs 2017.

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra og þingmaður, er verkefnisstjóri við þessa úttekt.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira