Hoppa yfir valmynd
Dómsmálaráðuneytið, Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Tveir ráðherrar í innanríkisráðuneyti

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra og Jón Gunnarsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. - mynd

Tveir ráðherrar verða í innanríkisráðuneytinu í nýrri ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar sem tók við í dag: Jón Gunnarsson er samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Sigríður Á. Andersen er dómsmálaráðherra. Eftir ríkisráðsfund á Bessastöðum tóku þau bæði við lyklum að innanríkisráðuneytinu nú síðdegis hjá fráfarandi innanríkisráðherra, Ólöfu Nordal.

Dómsmálaráðherra

Sigríður Á. Andersen hefur verið þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður frá 2015 og hefur áður setið á nokkrum þingum sem varaþingmaður.

Sigríður er fædd 1971 og lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1999. Sigríður var lögfræðingur hjá Verslunarráði Íslands árin 1999-2005, sat í dómstólaráði 2004-2009 og héraðsdómslögmaður hjá Lex árin 2007-2015. Sigríður sat í stjórn Andríkis, útgáfufélags, 1995–2006, í ritstjórn Vefþjóðviljans 1995–2006, stjórn Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, 1996–1997, í stjórn Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík og í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins 2005–2009. Þá var hún formaður Félags sjálfstæðismanna í vestur- og miðbæ 2006–2009, formaður Spánsk-íslenska viðskiptaráðsins 2007–2011 og í stjórn Amerísk-íslenska viðskiptaráðsins frá 2013. Sigríður var einn stofnenda og talsmanna Advice, félags sem hafði það að markmiði að miðla upplýsingum um mikilvægi þess að hafna Icesave lögunum í þjóðaratkvæðagreiðslu 9. apríl 2011. Maður hennar er Glúmur Jón Björnsson efnafræðingur og eiga þau tvær dætur.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

Jón Gunnarsson hefur verið þingmaður Suðvesturkjördæmis frá 2007 fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Jón er fæddur 1956. Hann lauk prófi frá málmiðnaðardeild Iðnskólans í Reykjavík 1975 og prófi í rekstrar- og viðskiptafræðum frá endurmenntun Háskóla Íslands 1996. Hann var bóndi árin 1981-1985, var yfirmaður auglýsinga- og áskriftadeildar Stöðvar 2 1986–1990, markaðsstjóri Prentsmiðjunnar Odda 1991–1993, rak ásamt eiginkonu sinni innflutningsfyrirtækið Rún ehf. 1994–2004 og var framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar 2005–2007. Jón hefur gegnt ýmsum félagsstörfum, var m.a. formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar, sat í stjórn fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Norðurlandskjördæmi vestra og hefur frá árinu 1995 verið formaður Sjávarnytja, félags áhugamanna um skynsamlega nýtingu sjávarafurða. Þá hefur Jón setið í ýmsum þingnefndum og var formaður atvinnuveganefndar árin 2013-2016. Kona hans er Margrét Halla Ragnarsdóttir verslunarkona og eiga þau þrjú börn.

Breytingar á forsetaúrskurði

Nokkrar breytingar hafa orðið á forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna á milli ráðuneyta. Þannig færast verkefni byggðamála til innanríkisráðuneytis frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og neytendamál hafa verið færð frá innanríkisráðuneytinu til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis.

Sigríður Á. Andersen fer með málefni er varða ákæruvald, dómstóla, réttarfar, lögreglu, fangelsi, lögmenn, almannavarnir, landhelgisgæslu, vopnamál, mannréttindi, útlendinga, sýslumenn, kosningar og kirkju- og trúmál.

Jón Gunnarsson fer með málefni á öllum sviðum samgangna, fjarskiptamál, málefni upplýsingasamfélagsins og sveitarstjórnar- og byggðamál.

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira