Hoppa yfir valmynd
18. janúar 2017 Heilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisráðherra ræddi hagnýtingu erfðaupplýsinga á fundi OECD

Óttarr Proppé á fundi heilbrigðisráðherra OECD ríkja - mynd

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra ræddi um sérstöðu Íslands á sviði erfðarannsókna og álitamál tengd hagnýtingu erfðaupplýsinga í forvarnarskyni á fundi með heilbrigðisráðherrum OECD ríkja í París í gær.

Meðal málefna sem tekin voru fyrir á fundi ráðherranna var hvernig best megi beita nýjustu heilbrigðistækni á sjálfbæran hátt. Undir þeim dagskrárlið gerði Óttarr að umtalsefni hvernig fámenni og landfræðileg einangrun Íslands hefði gert erfðarannsóknir á þjóðinni áhugaverðar meðal vísindamanna og skapað einstök tækifæri á því sviði.

Óttarr sagði áhuga fyrir því að nýta möguleikana á sviði erfðavísinda m.a. til einstaklingsmiðaðra forvarna. Hann gerði grein fyrir því að fyrir lægju upplýsingar um að á Íslandi bæru um 2000 einstaklingar í sér stökkbreytt BRCA2 gen sem auka verulega hættu á krabbameini í brjóstum og eggjastokkum hjá konum og krabbameini í blöðruhálskirtli hjá körlum. Vísindamenn á sviði erfðarannsókna teldu að unnt væri að finna þá landsmenn sem bæru í sér stökkbreytt BRCA2 gen og að með þá vitneskju fyrir hendi væri unnt að beita mjög áhrifaríkri meðferð í forvarnarskyni vegna fyrrnefndra krabbameina hjá konum.

Ráðherra ræddi síðan þau margvíslegu álitamál sem tengdust þessum möguleika, sem væru jafnt siðferðileg og lagaleg og vörðuðu einnig persónuvernd og fleira. Um þetta þyrfti að fjalla og móta um skýra stefnu og sagði ráðherra frá því að nýlega hefði verið skipaður starfshópur til að fara ýtarlega yfir allar hliðar þessara mála sem snúa að nýtingu erfðaupplýsinga til einstaklingsmiðaðra forvarna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum