Hoppa yfir valmynd
Dómsmálaráðuneytið

Sendiherra Makedóníu ræddi við dómsmálaráðherra

Fulltrúar Makedóníu ræddu við dómsmálaráðherra í dag. - mynd

Fulltrúar stjórnvalda í Makedóníu áttu í dag fund með Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra ásamt fulltrúum Útlendingastofnunar og sérfræðingum ráðuneytisins til að ræða aukningu á umsóknum um vernd hér á landi frá makedónískum ríkisborgurum. Fyrr í dag áttu þeir fund með fulltrúum utanríkisráðuneytisins.

Sendiherra Makedóníu gagnvart Íslandi, sem hefur aðsetur í London, Jovan Donev, og ræðismaður Makedóníu, Saso Andonov sátu fundinn með ráðherra ásamt Kristínu Völundardóttur, forstjóra Útlendingastofnunar, og sérfræðingum ráðuneytisins. Sendiherranum var greint frá mikilli fjölgun hælisleitenda frá Makedóníu síðastliðið ár auk þess sem rædd var möguleg ástæða þess að fjölskyldur leituðu í auknum mæli til Íslands eftir vernd. Fram kom að það sé einsdæmi í Evrópu að fjölskyldur frá þessu svæði fari saman á flótta.

Á síðasta ári sóttu 468 makedónískir ríkisborgarar um alþjóðlega vernd hér á landi. Nú þegar hefur fjölda verið synjað eða fólk dregið umsóknir til baka og því verið fylgt úr landi sem gefur vísbendingu um að aðgerðir íslenskra stjórnvalda undanfarnar vikur og mánuði beri árangur. Synjunarhlutfall þeirra umsókna sem búið er að vinna úr er 100%.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira