Hoppa yfir valmynd
23. janúar 2017 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra hrærður vegna samhugar grænlensku þjóðarinnar

Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra barst í gærkvöldi samúðarbréf frá starfsbróður sínum á Grænlandi, Vittus Qujaukitsoq, eftir að lögregla hafði tilkynnt að talið væri að Birna Brjánsdóttir hefði fundist látin. Í bréfi utanríkisráðherrans segir að fyrir hönd grænlensku landstjórnarinnar og Grænlendinga allra færi hann Íslendingum sínar dýpstu samúðarkveðjur á þessum erfiðu tímum. Hvarf Birnu Brjánsdóttur og tengsl grænlenskra ríkisborgara við atburðina sé mikið sorgarefni. Segir hann að böndin milli Grænlendinga og Íslendinga séu traust á mörgum sviðum og að glæpurinn sem framinn hafi verið snerti Grænlendinga djúpt. “Hugur Grænlendinga er með ykkur í dag,” segir í bréfi Vittus Qujaukitsoq. 

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segist hrærður vegna þess samhugar sem Grænlendingar hafi sýnt íslensku þjóðinni á þessari erfiðu stundu. “Hugur okkar allra er hjá fjölskyldu og ástvinum Birnu. Samkenndin sem vinir og grannar okkar sýna snertir mig djúpt og kertavakan sem Grænlendingar skipulögðu í gærkvöldi sýnir með hjartnæmum hætti hversu djúp vináttan er á milli þjóða okkar,” segir utanríkisráðherra. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum