Hoppa yfir valmynd
26. janúar 2017 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fjármálastefna fyrir 2017-2022: Aukinn afgangur af rekstri hins opinbera

Fjármálastefna fyrir 2017-2022 hefur verið lögð fram á Alþingi.
  •  Afgangur af rekstri hins opinbera næstu fimm ár. Afgangurinn verði 1% af vergri landsframleiðslu (VLF) á yfirstandandi ári en hækki í 1,6% næstu tvö ár á eftir og lækki árin á eftir. Stefnt er að rekstrarafgangi hjá sveitarfélögunum upp á 0,2% af VLF frá og með árinu 2019.
  • Á sama tíma er gert ráð fyrir hraðri lækkun skulda þannig að heildarskuldir hins opinbera fari niðurfyrir 30% í lok árs 2019.
  • Öllum óreglulegum tekjum varið til að hraða enn frekar niðurgreiðslu skulda eða til lækkunar á lífeyris­skuld­bind­ingum. Þetta er gert til að treysta fjárhagsstöðu ríkissjóðs og draga úr vaxta­gjöldum.
  • Spár um mikinn hagvöxt krefjast aðhalds í opinberum fjármálum til að sporna við þenslu.
  • Heildarútgjöld hins opinbera ekki umfram 41,5% af vergri landsframleiðslu á tímabilinu.

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur fyrir hönd ríkisstjórnarinnar lagt fram á Alþingi þingsályktunartillögu um fjármálastefnu fyrir árin 2017–22. Fjármálastefnan er lögð fram á grundvelli nýlegra laga um opinber fjármál sem kveða á um að slík stefna skuli lögð fram svo fljótt sem auðið er eftir að ríkisstjórn hefur verið mynduð. Í stefnunni eru sett fram töluleg markmið ríkisstjórnar um þróun opinberra fjármála, þ.e. ríkis og sveitarfélaga, næstu fimm árin með hliðsjón af áhrifum þeirra á hagkerfið.

Meginmarkmið nýrrar fjármálastefnu er í fyrsta lagi það að afgangur á heildarafkomu hins opinbera verði aukinn talsvert á næsta ári til að hægja á eftirspurnarvexti í hagkerfinu en að afgangurinn minnki smám saman þegar líður á tímabilið samhliða því að áætlað er að dragi úr hagvextinum. Gert er ráð fyrir að stærstur hluti bættrar afkomu komi fram hjá ríkissjóði en að sveitarfélögin skili einnig nokkrum afgangi. Lægri vaxtakostnaður, sem hlýst af niðurgreiðslum á skuldum hins opinbera, skapar svigrúm til greiða skuldir enn frekar niður.

Aukinn afgangur af rekstri hins opinbera dregur úr þörf fyrir háa vexti af hálfu Seðlabankans, sem gæti skilað heimilum og fyrirtækjum umtalsverðum ábata. Sem dæmi má taka að hefðu vextir verið 1% lægri árið 2015 þá má áætla að vaxtakostnaður heimila hefði verið um 19 milljörðum kr. lægri.

Annað meginmarkmið stefnunnar er að lækka skuldir verulega og að heildarskuldir A–hluta ríkissjóðs lækki úr um 38% af VLF í árslok 2016 í um 21% í árslok 2022. Þá er stefnt að því að skilyrði laga um opinber fjármál um að skuldahlutfall ríkissjóðs fari undir 30% af VLF verði náð fyrir lok ársins 2019. Þetta felur í sér að markmiðið frestast aðeins um eitt ár miðað við fyrri fjármálastefnu. Þetta næst þrátt fyrir að undir lok síðasta árs hafi ríkissjóður fjármagnað uppgjör á um 130 milljarða króna eingreiðslu í tengslum við uppgjör á lífeyrisskuldbindingum ríkis og sveitarfélaga. Þá er gert ráð fyrir að skuldir sveitarfélaga lækki um 1% af VLF á tímabilinu, eða úr 6% í 5%.

Þriðja meginmarkmið stefnunnar er að núverandi halli á heildarafkomu opinberra fyrirtækja verði horfinn á næsta ári og snúist síðan í myndarlegan afgang. Þetta gerist þrátt fyrir framkvæmdir á þeirra vegum verði umtalsverðar á tímabilinu. Það felur í sér að afgangur verði á starfsemi opinberra aðila í heild að meðtöldum opinberum fyrirtækjum. Það er nýmæli í stefnu þessari að sett eru fram markmið um starfsemi og afkomu félaga í eigu hins opinbera. Umsvif þeirra, einkum í fjárfestingum, geta haft veruleg áhrif á efnahagsþróunina. Með þessu er stuðlað að frekari samhæfingu hinnar opinberu starfsemi í hagstjórnarlegu tilliti.

Fjármálastefnan byggist á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands frá nóvember 2016 og fyrirliggjandi haggögnum. Ljóst er að efnahagsleg endurreisn eftir fall bankakerfisins er vel á veg komin. Hagvöxtur hefur verið samfelldur í á sjöunda ár og hagspáin gerir ráð fyrir áframhaldandi hagvexti út spátímann. Í spánni er gert ráð fyrir kröftugri hagvexti en í fyrri spám, sem talið er að nái hámarki árin 2016 og 2017, eða nálægt 5%, og að hann verði áfram þróttmikill í kringum 3% á síðari hluta tímabilsins. 

Öflugur efnahagsbati síðustu ára kallar á agaða hagstjórn. Seðlabankinn hefur beitt aðgerðum í peningamálum og uppkaupum á erlendum gjaldeyri en ljóst er að einnig þarf að sporna við vexti í eftirspurn. Hlutverk stjórnvalda er að tryggja stöðugleika og að þróun opinberra fjármála vinni með peningamálastefnu Seðlabankans í því skyni að stýrivextir þurfi ekki að vera hærri en ella. Brýnt er að beita fjármálum hins opinbera til að varna því að í kjölfar uppsveiflunnar verði harkaleg aðlögun á gengi krónunnar, verðlagi, kaupmætti og atvinnustigi. 

Þá er ekki síður mikilvægt að forsendur fyrir lægra vaxtastigi geta skilað jákvæðum áhrifum fyrir hag heimila og fyrirtækja. Sá aukni afgangur í rekstri hins opinbera á næstu árum sem fyrirliggjandi fjármálastefna felur í sér, sbr. taflan hér að neðan, mun stuðla að þessum markmiðum.

Spár gera ráð fyrir að tekjur hins opinbera aukist í svipuðum takti og hagvöxtur, eða um 4,8–5,6% á ári. Það svarar til nálægt 60 milljarða króna tekjuaukningar. Í þessu sambandi er sett það markmið að árleg heildarútgjöld hins opinbera verði ekki umfram 41,5% af VLF. Með þessu móti er stefnt að því að útgjaldavöxtur verði ekki umfram vöxt landsframleiðslunnar. Tilgangur þessa er að stuðla að festu og stöðugleika.

Vaxtagreiðslur af lánum ríkisins eru þriðji stærsti einstaki kostnaðarliðurinn á eftir útgjöldum til heilbrigðis- og velferðarmála. Trygg fjármálastjórn, niðurgreiðsla skulda og aðgerðir til að lækka vexti gera það kleift að auka útgjöld varanlega. Við bætist mikill hagvöxtur. Saman vinnur þetta að því að þrátt fyrir aukinn afgang af ríkisrekstri megi auka útgjöld á sjálfbæran hátt. Þetta mun endurspeglast í fjármálaáætlun sem lögð verður fram eigi síðar en 1. apríl. Þar mun ríkisstjórnin forgangsraða í þágu áherslumála sinna, einkum heilbrigðis- velferðar- og menntamála.

Megintilgangur fjármálastefnu er að stuðla að efnahagslegu jafnvægi til lengri tíma litið til að sem mestur stöðugleiki verði í efnahag fyrirtækja, heimila sog opinberra aðila. Fjármála­stefnan er lögð fram á Alþingi til að kjörnir fulltrúar geti tekið afstöðu til þeirra markmiða sem þar eru sett fram um opinber fjármál og hagstjórn. Fjármálastefna af þessum toga var fyrst lögð fram í fyrravor og samþykkt í ágúst síðastliðnum.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum