Hoppa yfir valmynd
Forsætisráðuneytið

Ráðherra fundaði með landsnefnd UN Women á Íslandi

Fundur með UN Women - mynd

Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra átti í dag fund með Ingu Dóru Pétursdóttur, framkvæmdastjóra landsnefndar UN Women á Íslandi. Tilgangur fundarins var að ræða áherslur landsnefndarinnar á sviði jafnréttismála, m.a. í tengslum við þau verkefni sem framundan eru á þessu sviði í velferðarráðuneytinu.

Landsnefnd UN Women á Íslandi er ein fimmtán landsnefnda Kvennastofnunar Sameinuðu þjóðanna sem starfa víðsvegar í heiminum. Meginhlutverk landsnefndarinnar er fjáröflun og upplýsingamiðlun um stöðu kvenna á alþjóðavettvangi, auk þess að vinna í nánu samstarfi við stjórnvöld, sveitarfélög og íslenskt atvinnulíf að auknu kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna. Íslensk stjórnvöld hafa frá árinu 2007 gert formlega samninga við landsnefndina um samstarf og styrkt rekstur hennar.

Ráðherra lagði áherslu á samstarf varðandi undirbúning og þátttöku Íslands á fundi Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna sem haldinn verður í New York í mars á þessu ári. Fyrirhugaðir eru fundir með framkvæmdastýru UN Women Phumzile Mlambo-Ngcuka um skuldbindingar og þátttöku Íslands í verkefninu HeforShe. Skuldbindingar Íslands snúa að því að útrýma kynbundnum launamun á Íslandi fyrir árið 2022, jafna hlut kynjanna í fjölmiðlum fyrir 2020 og fá fleiri karla til liðs við jafnréttisbaráttuna bæði á Íslandi og á alþjóðavettvangi.

Á fundinum í dag ræddu ráðherra og framkvæmdastjóri Landsnefndarinnar um mikilvægi þess að kynna á fundinum í New York íslenska jafnlaunastaðalinn og jafnlaunavottunina sem fyrirhugað er að leiða í lög hér á landi. Vonir standa til þess að gerður verði samstarfssamningur við Kvennastofnun Sameinuðu þjóðanna um notkun staðalsins og íslenska jafnlaunamerkisins á alþjóðavísu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira