Hoppa yfir valmynd
31. janúar 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

„Aðstoðum fólk í neyð og sýnum hvernig samfélag Ísland er“

Fimm sýrlenskar fjölskyldur sem setjast munu að í Reykjavík og á Akureyri lentu í Keflavík síðdegis í gær og var vel fagnað við komuna. Herra forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, hélt fólkinu stutta móttökuathöfn á Bessastöðum þar sem hann ásamt félags- og jafnréttismálaráðherra og forsvarsmönnum sveitarfélaganna buðu fólkið velkomið.

„Við tökum á móti sýrlensku flóttamönnunum með mikilli gleði“ sagði Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra í stuttu ávarpi við komu þeirra: „Með því að bjóða þessar fjölskyldur velkomnar til landsins sinnum við ekki aðeins skyldu okkar í samfélagi þjóðanna til að aðstoða þá sem eru í neyð heldur sýnum að sama skapi hvernig samfélag Ísland er.“

Fólkið kemur frá Líbanon þar sem það hefur dvalið síðastliðin þrjú ár eftir að hafa hrakist frá Sýrlandi vegna styrjaldarástandsins þar. Alls eru þetta 22 einstaklingar, níu fullorðnir og þrettán börn. Ein þessara fjölskyldna sest að á Akureyri en hinar í Reykjavík. Bæði sveitarfélögin hafa áður tekið á móti sýrlenskum flóttamönnum; Akureyri í fyrra og Reykjavík árið 2015. Þrjár fjölskyldnanna sem komu í dag eiga ættingja meðal kvótaflóttafólks sem kom hingað í boði stjórnvalda í fyrra.

Enn er von á tveimur fjölskyldum úr hópi þeirra flóttamanna sem stjórnvöld hafa þegar boðið til landsins. Að þeim meðtöldum hafa íslensk stjórnvöld tekið á móti 117 sýrlenskum flóttamönnum frá því að ástandið í Sýrlandi varð óbærilegt vegna borgarastyrjaldarinnar.

Móttaka flóttafólks er samstarfsverkefni stjórnvalda, sveitarfélaga, Rauða krossins og Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Áætlað er að 65,3 milljónir manna séu á flótta vegna stríðsátaka og ofsókna í heiminum. Þar af er talið að um 4,9 milljónir séu landflótta Sýrlendingar sem dvelja meðal annars í Tyrklandi og Líbanon. Ljóst er að aldrei hefur verið mikilvægara að þjóðir heims sameinist um að taka á móti flóttafólki til að létta byrðum af þeim þjóðum þar sem flóttafólk er fjölmennast og aðstoða við að skapa því mannsæmandi lífsskilyrði.

Í viðmiðunarreglum flóttamannanefndar um móttöku og aðstoð við flóttafólk er staða flóttafólks og réttindi þeirra skilgreind, fjallað um inntak þeirrar aðstoðar sem flóttafólk skal njóta fyrst eftir komu sína til landsins og gerð grein fyrir kostnaðarskiptingu vegna þess milli ríkis og viðkomandi sveitarfélaga. Í grófum dráttum snúa þessi verkefni að því að tryggja fólki húsnæði, félagslega ráðgjöf, menntun og fræðslu, heilbrigðisþjónustu, aðstoð við atvinnuleit og fjárhagsaðstoð til framfærslu.

Rauði krossinn kemur að móttöku flóttafólksins í hverju sveitarfélagi þar sem hann útvegar fólkinu nauðsynlegt innbú á heimili þeirra og hefur jafnframt umsjón með stuðningsfjölskyldum sem ætlað er að liðsinna flóttafólkinu við aðlögun að íslensku samfélagi. Velferðarráðuneytið og Rauði krossinn gerðu nýlega með sér samning um framkvæmd þessara verkefna. Í þeim samningi fólust jafnframt mikilvæg tímamót þar sem með honum er stigið skref í átt að því að jafna þjónustu við flóttafólk, hvort sem það kemur í boði stjórnvalda (kvótaflóttafólk) eða á eigin vegum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum