Hoppa yfir valmynd
1. febrúar 2017 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Óskað eftir umsögnum um skýrslu um stöðu innleiðingar Árósasamningsins

Merki Árósasamningsins

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar eftir umsögnum um drög að skýrslu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um stöðu innleiðingar Árósasamningsins hér á landi. Um er að ræða aðra skýrslu Íslands til samningsins en aðildarríkjum hans ber að skila slíkum skýrslum til skrifstofu samningsins á þriggja ára fresti.

Ísland fullgilti í október 2011 Árósasamninginn um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum. Þar með varð Ísland fullgildur aðili að samningnum og því starfi sem tengist honum. Auk aðildarríkjaráðstefnu á þriggja ára fresti og ríkjafunda sem haldnir eru árlega eru á vettvangi samningsins reknir vinnuhópar um helstu málefni samningsins, þ.e. aðgang að upplýsingum, þátttökuréttindi almennings og aðgang að réttlátri málsmeðferð. Þá er rekin sérstök nefnd um framfylgni (Compliance Committee) sem fylgist með framkvæmd samningsins í aðildarríkjum hans.

Aðildarríkjum ber að skila aðildarríkjaskýrslu til skrifstofu samningsins á þriggja ára fresti þar sem farið er yfir stöðu innleiðingar ákvæða samningsins í viðkomandi ríki. Síðast skiluðu aðildarríkin skýrslu árið 2014 og var Ísland þar á meðal. Í mars 2017 eiga aðildarríkin að skila skýrslu að nýju og verða þær til umræðu á aðildarríkjaráðstefnu samningsins síðar á þessu ári.

Þar sem Árósasamningurinn fjallar um þátttökuréttindi almennings og er eðli málsins samkvæmt áhersla lögð á að stjórnvöld hafi samráð við almenning og samtök hans við gerð skýrslunnar. Mikilvægt er að öll sjónarmið komi fram, bæði sjónarmið stjórnvalda, almennings og félagasamtaka sem nýta sér þann rétt sem aðild að samningnum veitir.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar því eftir umsögnum og athugasemdum við skýrsludrögin. Frestur til að skila umsögnum rennur út miðvikudaginn 1. mars næstkomandi og er hægt að senda þær á netfangið [email protected] eða í bréfapósti til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, Skuggasundi 1, 101 Reykjavík.

Nánari upplýsingar veitir Laufey Helga Guðmundsdóttir, [email protected].

Drög að 2. skýrslu Íslands um stöðu innleiðingar Árósasamningsins (word-skjal)

Drög að 2. skýrslu Íslands um stöðu innleiðingar Árósasamningsins, þar sem fram koma þær breytingar sem orðið hafa frá 1. landsskýrslu 2014 (word-skjal)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum