Hoppa yfir valmynd
2. febrúar 2017 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Menntaverðlaun atvinnulífsins

Menntaverðlaun atvinnulífsins voru veitt í morgun á Menntadegi atvinnulífsins 2017. Verðlaunin eru veitt fyrirtækjum sem skara fram úr í menntun, fræðslu og þjálfun starfsfólks.

Alcoa Fjarðarál, menntafyrirtæki ársins 2017
Alcoa Fjarðarál, menntafyrirtæki ársins 2017

Menntadagur atvinnulífsins er haldinn hátíðlegur í fjórða sinn í dag og var dagskrá dagsins helguð íslenskri máltækni. Af þessu tilefni hélt mennta- og menningarmálaráðherra ávarp þar sem hann sagði m.a.:

„Eigi íslenska að vera lífvænleg þjóðtunga í „þróuðum heimi“ verður hún að geta staðið undir kröfum upplýsingatækninnar. Svo einfalt er það. Við skulum ekki vera svartsýn, en þetta er ótvírætt umfangsmikið viðfangsefni, sem þjóðin þarf að taka sameiginleg á, og verður ekki leyst til framtíðar með áhlaupi, heldur markvissri vinnu allra sem að því koma. Það er skýr vilji íslenskra stjórnvalda að svo verði, og efling íslenskrar máltækni verður því að vera grunnþáttur í því að árangur náist. “

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti menntaverðlaun atvinnulífsins en þau eru veitt fyrirtækjum sem skara fram úr í menntun, fræðslu og þjálfun starfsfólks.

Alcoa Fjarðaál er hlaut verðlaun sem menntafyrirtæki ársins 2017 og Keilir – miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs sem menntasproti ársins 2017.

Þetta er í fjórða skipti sem Menntadagur atvinnulífsins er haldinn en hann er samstarfsverkefni Samorku, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins.

Í fréttatilkynningu frá Samtökum atvinnulífsins segir m.a.: „ Alcoa Fjarðaál á Reyðarfirði er stærsta iðnfyrirtæki landsins en þar vinna um 530 starfsmenn auk fjölda verktaka. Metnaður er lagður í menntun, þjálfun og fræðslu starfsfólks á hverjum degi. Fyrirtækið rekur stóriðjuskóla sem er samstarfsverkefni Fjarðaáls, Austurbrúar og Verkmenntaskóla Austurlands en um 50 nemendur stunda nám við skólann á hverjum tíma“.

Um Keili segir í framangreindri fréttatilkynningu:

„Keilir er alhliða menntafyrirtæki í eigu háskóla, fyrirtækja og almannasamtaka. Á aðeins tíu árum hefur tekist að breyta yfirgefinni herstöð í þekkingarþorp. Keilir hefur lyft grettistaki, innleitt nýjar hugmyndir og kennsluhætti og lagt sig fram um að hlusta á þarfir atvinnulífsins og mennta starfsfólk sem eftirspurn er eftir þegar námi lýkur.

Hlutfall háskólamenntaðra íbúa í Reykjanesbæ sem eru eldri en 25 ára hefur meira en tvöfaldast frá 2007 og 85% þeirra sem ljúka námi við Háskólabrú Keilis halda áfram í háskóla en margir þeirra hafa flosnað upp úr hefðbundnu háskólanámi“.

Á efri mynd má sjá Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, og forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannesson, ásamt Magnúsi Þór Ásmundssyni, forstjóra Fjarðaáls. Á neðri mynd má sjá Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, og forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannesson, ásamt Árna Sigfússyni, stjórnarformanni Keilis og Hjálmari Árnasyni, framkvæmdastjóra Keilis.

Myndirnar tók Birgir Ísleifur Gunnarsson.

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum