Velferðarráðuneytið

Samningur um öryggisvistun á höfuðborgarsvæðinu

Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík undirrituðu í dag samning sem kveður á um fyrirkomulag öryggisvistunar þeirra sem hennar þurfa með og um þjónustu við einstaklinga sem fengið hafa rýmkunardóma.

Meginmarkmið samningsins er að tryggja að þeir sem þurfa á öryggisvistun að halda á hverjum tíma fái hana ásamt þjónustu í samræmi við gildandi lög og reglur og þá alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að.

Með samningnum tekur velferðarráðuneytið m.a. að sér að tryggja fullnægjandi fjármagn til að standa undir kostnaði vegna þeirrar öryggisvistunar sem nauðsynleg telst samkvæmt samningnum, tryggja þeim sem sæta öryggisvistun læknis- og hjúkrunarmeðferð og aðra þjónustu sem talin er geta dregið úr þörf fyrir öryggisvistun samkvæmt mati samningsaðila, auk þess að sjá til þess að rekstaraðilinn, þ.e. Reykjavíkurborg, fái nauðsynlegar valdheimildir og úrræði til að sinna þessu verkefni.

Reykjavíkurborg tekur að sér að starfrækja öryggisvistun fyrir þrjá einstaklinga og einnig þjónustu við tvo einstaklinga sem hlotið hafa rýmkunardóma. Samkvæmt samningnum mun borgin einnig veita þeim sem eru í öryggisvistun þá viðbótarþjónustu sem nauðsynleg er og þeir eiga lögbundinn rétt á að fá til að geta lifað sem eðlilegustu lífi innan þess ramma sem nauðsynlegur er við þessar aðstæður.

Samningurinn sem undirritaður var í dag tekur til ársins 2016 en á grundvelli hans er unnið að sambærilegu samkomulagi um fyrirkomulag öryggisvistana og þjónustu við einstaklinga með rýmkunardóma árið 2017. Enn fremur er unnið að því að setja umgjörð um skipan þessara mála til framtíðar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn