Hoppa yfir valmynd
15. febrúar 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Fundur ráðherra og forystu ÖBÍ

Ellen Calmon, Halldór Sævar Guðbergsson og Þorsteinn Víglundsson - mynd

Jafnrétti í víðu samhengi, starfsendurhæfing, virkni, örugg framfærsla og aukinn sveigjanleiki á vinnumarkaði með auknum atvinnutækifærum fyrir fatlað fólk voru meðal fjölmargra mála sem bar á góma á fundi forsvarsmanna Öryrkjabandalags Íslands með félags- og jafnréttismálaráðherra í dag.

Til fundarins við Þorstein Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra komu Ellen Calmon, formaður ÖBÍ og Halldór Sævar Guðbergsson varaformaður.  Þau kynntu fyrir ráðherra helstu áherslumál bandalagsins. Þá gerðu þau einnig grein fyrir sinni sýn á þau áherslumál sem fram koma í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og varða sérstaklega málefni fatlaðs fólks, s.s. um lögfestingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar, innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og upptöku starfsgetumats í stað örorkumats.

Jafnrétti í víðri merkingu

Ellen og Halldór ræddu sérstaklega um jafnréttismál þar sem þau undirstrikuðu mikilvægi þess að fjallað sé um jafnrétti í víðu samhengi í ljósi þess að mjög margir þættir geti legið til grundvallar mismunun. Jafnrétti snúist um mannréttindi og að tryggja öllum jöfn tækifæri. Ráðherra lagði áherslu á það á fundinum að jafnrétti lyti í hans huga að breiðari nálgun en eingöngu kynjajafnrétti.

Starfsendurhæfing og samfélagsleg virkni

Starfsendurhæfing og samfélagsleg virkni fatlaðs fólks voru fundarmönnum ofarlega í huga. Ráðherra sagði ljóst að bæta þyrfti farveg fyrir fólk til starfsendurhæfingar og efla þau úrræði sem væru fyrir hendi. Það ætti að vera markmið að fjárfesta í starfsendurhæfingu , enda væri ávinningurinn ótvíræður þegar starfsendurhæfing skilaði árangri, jafnt fyrir hlutaðeigandi einstaklinga og samfélagið í heild. Í þessu samhengi var einnig rætt um nauðsyn þess að vinnumarkaðurinn sýndi meiri sveigjanleika til að greiða fyrir atvinnuþátttöku fatlaðs fólks. Þar ætti opinberi vinnumarkaðurinn að ganga á undan með góðu fordæmi, sýna sveigjanleika og vinna gegn fordómum.

Aðstæður þeirra sem ljóst er að geti ekki endurhæfst til atvinnuþátttöku voru ræddar og mikilvægi þess að styðja þann hóp fólks til virkni og samfélagslegrar þátttöku. Formaður Öryrkjabandalagsins lagði í því sambandi áherslu á fólk þyrfti að hafa fjárhagslega getu til að taka virkan þátt í samfélaginu og til þess þyrfti m.a. að hækka grunnlífeyri örorkubóta. Forsvarsmenn ÖBÍ lýstu áhyggjum yfir því að þeim þætti óljóst hvaða breytinga megi vænta í tengslum við innleiðingu starfsgetumats í stað örorkumats og hvernig starfsgetumatið muni hafa áhrif á aðstæður fólks. Ráðherra lagði áherslu á að megináherslan yrði á sjálfa starfsendurhæfinguna þar sem hún gæti skilað árangri og að starfsgetumatinu væri ekki ætlað að bylta kerfinu. Samráð yrði haft við ÖBÍ um mótun og útfærslu starfsgetumatsins. Að lokum var rætt um samstarf ÖBÍ og ráðuneytisins og lýstu báðir aðilar yfir áhuga og vilja til góðs samstarfs og samráðs í framtíðinni.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum