Hoppa yfir valmynd
Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Viðurkenningar veittar á ráðstefnu Landverndar um Skóla á grænni grein

Föstudaginn 10. febrúar sl. stóð Landvernd fyrir ráðstefnu um Skóla á grænni grein, en það er stærsta verkefni í menntun til sjálfbærni á Íslandi og í heiminum öllum. Um 140 kennarar, skólastjórar og starfsfólk leik-, grunn- og framhaldsskóla af öllum landshlutum Íslands sóttu ráðstefnuna sem haldin var í Reykjavík.

Frá ráðstefnu Landverndar um Skóla á grænni grein
Frá ráðstefnu Landverndar um Skóla á grænni grein

Skólar á grænni grein er alþjóðlegt verkefni sem hefur það að markmiði að að auka umhverfismennt og styrkja menntun til sjálfbærni í skólum. Skólar ganga í gegnum sjö skref í átt að aukinni umhverfisvitund og sjálfbærni. Þegar því marki er náð fá skólarnir að flagga Grænfánanum til tveggja ára og fæst sú viðurkenning endurnýjuð ef skólarnir halda áfram góðu starfi.

Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, og Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra ávörpuðu ráðstefnugestina og veittu tveimur skólum sérstaka viðurkenningu fyrir að hafa unnið flesta Grænfána, eða alls átta, en Fossvogsskóli og Hvanneyrardeild Grunnskóla Borgarfjarðar hafa verið Skólar á grænni grein frá því að verkefnið hóf göngu sína hér á landi árið 2000.

Í upphafi verkefnisins tóku tólf skólar þátt í verkefninu en í dag eru um 230 skólar  og 45.000 nemendur á öllum skólastigum þátttakendur. Skólar á grænni grein er mikilvægt verkefni fyrir innleiðingu sjálfbærni í skólastarfi en það styður við alla grunnþætti aðalnámskrár leik-, grunn- og framhaldsskóla þar sem sjálfbærni felur í sér jafnrétti, lýðræði og mannréttindi, heilbrigði og velferð.

Nánari upplýsingar um verkefnið og ráðstefnuna má finna hér

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira