Hoppa yfir valmynd
Dómsmálaráðuneytið

Dómsmálaráðherraheimsótti Útlendingastofnun

Sigríður Á. Andersen og Kristín Völundardóttir. - mynd

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra heimsótti Útlendingastofnun í Skógarhlíð í Reykjavík á dögunum og kynnti sér starfsemi hennar. Jafnframt heimsótti hún móttöku- og greiningarmiðstöð fyrir hælisleitendur við Bæjarhraun í Hafnarfirði.

Með ráðherra í för voru Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytis, og Laufey Rún Ketilsdóttir, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra, ásamt sérfræðingum ráðuneytisins í útlendingamálum. Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar, tók á móti hópnum og kynnti helstu þætti starfseminnar. Til umræðu var meðal annars þróun í fjölda hælisumsókna en það sem af er ári hafa yfir 100 einstaklingar þegar sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi sem er fjölgun milli ára. Tæplega 40% umsækjenda komu frá ríkjum Balkanskagans.

Ráðherra gekk einnig um húsakynnin og heilsaði upp á starfsfólk stofnunarinnar bæði í Skógarhlíð og Bæjarhrauni. „Þetta var gagnleg heimsókn og ljóst að hjá Útlendingastofnun er valinn maður í hverju rúmi. Álagið hefur verið mikið að undanförnu hjá stofnuninni vegna fordæmalausrar fjölgunar hælisumsókna en starfsmenn hafa brugðist við með útsjónarsemi, hæfni og skipulagi til að mæta þeim áskorunum,“ sagði dómsmálaráðherra að lokinni heimsókninni.

Á myndinni eru dómsmálaráðherra og forstjóri Útlendingastofnunar með starfsmönnum stoðdeildar ríkislögreglustjóra sem hefur aðsetur í Bæjarhrauni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira