Hoppa yfir valmynd
24. febrúar 2017 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Fulbright stofnunin 60 ára

Kristján Þór Júlíusson mennta- og menningarmálaráðherra ávarpaði gesti á afmælissamkomu stofnunarinnar

IMG_1161
IMG_1161

Fulbright stofnunin á Íslandi hefur verið starfrækt síðan 1957 samkvæmt tvíhliða samningi Íslands og Bandaríkjanna og leggja bæði ríkin fram fé til starfseminnar. Markmið Fulbright stofnunarinnar er að stuðla að samstarfi ríkjanna á sviði mennta, vísinda og lista.

Kristján Þór Júlíusson mennta- og menningarmálaráðherra ávarpaði samkomuna. Hann fagnaði því að Fulbright, hafi á síðustu árum í auknum mæli, látið sig málefni norðurslóða varða. Má þar nefna norðurslóðaáætlunina, Fulbright Arctic Initative, sem var hleypt af stokkunum árið 2015 með það að markmiði að styrkja alþjóðlegt vísindasamstarf á þessu sviði og áttu Íslendingar þar sinn fulltrúa. Ráðherra vakti athygli á að Fulbright stofnuninni á Íslandi hafi gert sérstakan samstarfssamning við Norðurskautsskrifstofu Bandaríska rannsóknaráðsins (National Science Foundation), fyrst stofnana í heiminum.

Nýlega endurnýjuðu íslensk stjórnvöld og Fulbright stofnunin samstarfssamning um styrki í norðurslóðafræðum. Markmiðið er að efla vísinda- og fræðastarf og styrkja menntastofnanir á Íslandi í þessum mikilvæga málaflokki. Þegar er komin góð reynsla af þessu samstarfi og sem m.a. hefur leitt til þess að öflugir fræðimenn á sviði norðurslóðarannsókna koma til starfa á Íslandi við bæði kennslu og rannsóknir.

„Það er því óhætt að segja að Fulbright samstarfið hafi auðgað íslenskt menningarlíf sem og háskóla- og vísindaumhverfi. Samstarfið getur, að mínu mati, áfram stuðlað að því að styðja háskólana í landinu að byggja upp öflugt rannsókna‐ og þróunarstarf, halda uppi gæðum og bæta samkeppnishæfni Íslands“ sagði Kristján Þór Júlíusson mennta- og menningarmálaráðherra meðal annars í ávarpi sínu. Hann gat þess einnig að áform væru uppi um að auka framlög af Íslands hálfu til stofnunarinnar á afmælisárinu .

Auk ráðherra ávörpuðu framkvæmdastjóri Fulbright á Íslandi, fulltrúi bandaríska sendiráðsins, núverandi og fyrrum styrkþegar samkomuna og Fulbright fiðluleikarar fluttu íslensk-ameríska lagasyrpu í tilefni dagsins.

Starfsemi Fulbright stofnunarinnar felst í því að efla samskipti Íslands og Bandaríkjanna á sviði mennta, menningar og rannsókna og er hlutverkið tvíþætt: Annars vegar að veita íslenskum og bandarískum náms- og fræðimönnum styrki til náms, kennslu og rannsókna og hins vegar að starfrækja námsráðgjöf þar sem upplýsingar og ráðleggingar eru veittar um nám og námsmöguleika í Bandaríkjunum. Fyrsti íslenski styrkþeginn var Jón G. Þórarinsson tónlistarkennari sem hélt til Bandaríkjanna 5. september 1957. Alls eru styrkþegar stofnunarinnar frá byrjun orðnir um 1400 af báðum þjóðernum.

Í stjórn stofnunarinnar sitja fjórir Íslendingar og fjórir Bandaríkjamenn, sem eru skipaðir af mennta- og menningarmálaráðherra og sendiherra Bandaríkjanna sem eru heiðursformenn. Jafnframt starfa með stjórninni tveir varamenn. Þá er starfrækt Félag Fulbright styrkþega.

AfmaelismyndIMG_1165

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum