Hoppa yfir valmynd
Félagsmálaráðuneytið

Húsnæðismál: Stofnframlög aukin um 1,5 milljarða króna

Stefnt er að því að auka opinberan húsnæðisstuðning í formi stofnframlaga um 1,5 milljarða króna á þessu ári. Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu Þorsteins Víglundssonar félags- og húsnæðismálaráðherra þessa efnis. Ákvörðunin er liður í endurskoðun á forsendum kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, líkt og fram kemur í meðfylgjandi yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Stofnframlög eru veitt á grundvelli nýrra laga um almennar íbúðir sem samþykkt voru á Alþingi í júní 2016. Markmið þeirra er að bæta húsnæðisöryggi efnaminni fjölskyldna og einstaklinga með því að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi húsnæði til leigu.

Þann 29. maí 2015 gaf þáverandi ríkisstjórn út yfirlýsingu um aðgerðir í húsnæðismálum í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Markmiðið með yfirlýsingunni var að leggja grunn að félagslegu íbúðakerfi með byggingu allt að 2.300 leiguíbúða á fjórum árum.

Íbúðalánasjóður hefur þegar úthlutað 2,1 milljarði króna til byggingar 385 leiguíbúða sem rísa munu í 11 sveitarfélögum. Þessu til viðbótar mun íbúðalánasjóður úthluta um 700 milljóna króna stofnstyrkjum vegna ársins 2016 á næstunni og má þá ætla að heildarfjöldi íbúða verði rúmlega 500.

Til að tryggja að fyrrnefnd markmið gangi eftir er ljóst að framlag ríkisins til stofnframlaga þarf að vera allt að þrír milljarðar króna á þessu ári sem er tvöfalt hærra en áður var áætlað og byggist samþykkt ríkisstjórnarinnar á því. Samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar verða einnig settar reglur um það hvernig heildarfjöldi íbúða sem reistar verða á þessum forsendum skuli skiptast milli markhópa og framkvæmdaaðila áður en kemur til úthlutunar stofnstyrkja vegna ársins 2017.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira