Hoppa yfir valmynd
2. mars 2017 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Þróun launakjara alþingismanna að teknu tilliti til lækkunar á starfstengdum kostnaði

Hagstofa Íslands hefur að beiðni fjármála- og efnahagsráðuneytisins tekið saman upplýsingar um þróun launakjara alþingismanna frá árinu 2006. Það er sama tímabil og greining á vegum aðila vinnumarkaðarins á vettvangi SALEK hefur byggst á og einnig hefur kjararáð annast launaákvarðanir alþingismanna frá sama ári. 

Í samantekt Hagstofunnar er ekki að finna upplýsingar um áhrif ákvörðunar forsætisnefndar Alþingis um að lækka tilteknar greiðslur til þingmanna, enda koma þær til framkvæmdar vegna launa í febrúar. Hefur ráðuneytið bætt þeim upplýsingum við þær upplýsingar sem Hagstofan hefur tekið saman, þannig að fá megi heildaryfirlit yfir þróun launakjara þingmanna. Helsta niðurstaðan er að launaþróun þingmanna eftir lækkun forsætisnefndar á starfstengdum kostnaði er svipuð og hjá öðrum hópum á vinnumarkaði, borið saman við árið 2006.

Við mat á þróun launakjara þingmanna verður að hafa í huga að kjör þeirra eru samsett með öðrum hætti en almennt tíðkast. Þingmenn fá starfstengdar greiðslur sem jafna má til launa og ákvað forsætisnefnd Alþingis nýlega að lækka þær greiðslur. Var ferðakostnaður lækkaður um 54 þús. kr. sem jafna má til um 100 þús. kr. í launagreiðslu, og starfskostnaður lækkaður um 50 þús. kr. Segir á vef Alþingis að samanlagt megi jafna þessari lækkun við 150 þúsund krónur fyrir skatt.

Mynd 1. Þróun heildarlaunakjara alþingismanna miðað við þróun launavísitölu annarra hópa á vinnumarkaði (miðað við nóvember ár hvert) með áhrifum lækkunar forsætisnefndar.

Litlu skiptir hvort litið er til grunnlauna, reglulegra launa eða heildarlauna þegar launaþróunin er skoðuð. Sökum þess hvernig kjör þingmanna eru samsett er einfaldast að horfa til heildarlauna við samanburð við þróun launavísitölu annarra hópa á vinnumarkaði, sjá mynd 1. Eins og fram kemur á grafinu er þróun heildarlaunakjara  þingmanna eftir lækkun forsætisnefndar við lok tímabilsins mjög áþekk launaþróun annarra hópa á vinnumarkaði. Á mynd 2 er sama launaþróunin sýnd með einfaldari hætti og launaþróunin með lækkun forsætisnefndar sýnd eins og ef hún hefði tekið gildi í nóvember 2016. Launaþróun alþingismanna frá nóvember 2006 og til loka tímabilsins er nær alveg sú sama og þróun launavísitölu.

Mynd 2. Þróun heildarlaunakjara alþingismanna miðað við þróun launavísitölu þar sem lækkun forsætisnefndar er sýnd eins og ef hún hefði tekið gildi í nóvember 2016.

Við mat á launaþróun verður að hafa í huga að heildarlaun ýmissa hópa geta hafa þróast með öðrum hætti en launavísitala. Þetta gildir t.d. um hópa sem unnu minni yfirvinnu eftir hrun en þeir höfðu áður unnið. Í þessu sambandi má benda á að launaþróun alþingismanna frá árinu 2006 og fram að síðustu ákvörðun kjararáðs var mun lakari en launaþróun annarra hópa á vinnumarkaði. Heildarlaun þingmanns sem setið hefur á þingi allt tímabilið eru því mun lægri en ef þau hefðu fylgt þróun launavísitölu. 

 

 

 

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum