Hoppa yfir valmynd
3. mars 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Bjarkarhlíð miðstöð fyrir þolendur ofbeldis opnuð

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri, Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra og Þorsteinn Víglundsson, velferðarráðherra - mynd

Starfsemi er hafin í Bjarkarhlíð við Bústaðaveg í Reykjavík þar sem rekin verður miðstöð fyrir þolendur ofbeldis. Bjarkarhlíð var opnuð formlega í gær að viðstöddum fulltrúum þeirra samstarfsaðila sem koma að verkefninu.

Bjarkarhlíð er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, velferðarráðuneytisins, innanríkisráðuneytis, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Samtaka um kvennaathvarf, Stígamóta, Drekaslóðar, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Kvennaráðgjafarinnar. 

Starfsemi Bjarkarhlíðar verður rekin sem þróunarverkefni næstu tvö árin. Að hluta til er byggt á erlendri fyrirmynd þar sem meginmarkmið er fullorðnir þolendur ofbeldis geti á einum stað fengið samhæfða þjónustu og ráðgjöf. Veitt verður fræðsla og fjallað um eðli og afleiðingar ofbeldis og haldin námskeið um ólíkar birtingarmyndir ofbeldis og afleiðingar þess.

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, sagði við opnunina að það væri ánægjulegt að sjá hve víðtækt og gott samstarf tekist hefði um þetta samfélagslega mikilvæga verkefni. Hann sagði miður að aðstæður sem kölluðu á þetta úrræði væru fyrir hendi, en það jákvæða sem samstarfsverkefnið bæri með sér væri að samfélagið og stofnanir þess viðurkenndu þennan vanda, hefðu vilja til að takast á við hann og vildu veita þolendum ofbeldis sem bestan stuðning.

Framlag samstarfsaðila verður með ýmsum hætti. Velferðarráðuneytið ábyrgist ákveðið fjármagn til verkefnisins þ.e. 10 m.kr. á árinu 2016, 20 m.kr. á árinu 2017 og 20 m.kr. á árinu 2018. Reykjavíkurborg leggur til húsnæði, búnað og stendur straum af rekstrarkostnaði hússins. Vinnuframlag og viðvera verður frá Stígamótum, Drekaslóð, Kvennaathvarfi, Kvennaráðgjöf og Mannréttindaskrifstofu Íslands, auk þess sem Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu veitir upplýsingar um meðferð mála í réttarvörslukerfinu og kemur að mati á öryggi þolenda. Vonir standa til að fleiri aðilar muni koma að samstarfinu þegar fram líða stundir.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum