Hoppa yfir valmynd
Dómsmálaráðuneytið

Grundvallarbreytingar áskyldum og ábyrgð opinberra aðila sem vinna með persónuupplýsingar

Frá morgunverðarfundi um nýja persónuverndarreglugerð. - mynd

Fjallað var um nýja Evrópureglugerð um persónuvernd á morgunverðarfundi í Reykjavík í dag sem Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við HÍ og Félag forstöðumanna ríkisstofnana stóðu að í samvinnu við innanríkisráðuneytið og Persónuvernd. Flutt voru erindi um breytingarnar og hvaða kröfur þær gera til stofnana og fyrirtækja.

Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytis, stýrði fundinum og sagði í upphafsorðum sínum að gildistaka nýrrar Evrópureglugerðar um persónuvernd væri brýnt viðfangsefni sem snerti alla borgara landsins, allar stofnanir og öll fyrirtæki. Hún sagði það hafa verið tímamót þegar gildandi Evróputilskipun var samþykkt 1995 en síðan hefði orðið bylting í tækniþróun og umfangið á vinnslu persónuupplýsinga hefði margfaldast. Þær væru nú orðnar mjög verðmætar í hinu stafræna efnahagskerfi Evrópu.

Ragnhildur sagði reglugerðina koma til framkvæmda í Evrópu í maí 2018 og að innanríkisráðuneytið bæri ábyrgð á innleiðingu hennar í íslensk lög. Þetta væru umfangsmestu breytingar á sviði persónuverndar í tvo áratugi. „Verkefnið er sannarlega umfangsmikið, álitaefnin mörg og ríkir hagsmunir af því að innleiðingin takist vel. Við þurfum að greina stöðuna og setja okkur markmið sem endurspegla breytt umhverfi,“ sagði hún í lok ávarps síns.

Fyrsta erindi fundarins flutti Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, og fjallaði hún um persónuvernd sem lykilatriði í rekstri og um ýmsar mikilvægar breytingar sem leiða af nýju regluverki. Hörður Helgi Helgason, lögmaður og fyrrverandi forstjóri Persónuverndar, ræddi um leiðir til að uppfylla kröfur hins nýja regluverks og Jóhanna Bryndís Bjarnadóttir, sendiráðunautur frá utanríkisráðuneytinu, sagði frá leið nýrrar persónuverndarreglugerðar ESB inn í EES samninginn. Að erindum loknum voru síðan umræður.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira