Hoppa yfir valmynd
3. mars 2017 Dómsmálaráðuneytið

Miðstöð fyrir þolendur ofbeldis opnuð í Bjarkarhlíð

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra sagði nokkur orð við opnun miðstöðvarinnar í gær. - mynd

Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, var formlega opnuð í gær. Miðstöðin er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, velferðarráðuneytis, innanríkisráðuneytis, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Samtaka um kvennaathvarf, Stígamóta, Drekaslóðar, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Kvennaráðgjafarinnar. Hún er rekin sem þróunarverkefni til tveggja ára.

Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, Þorsteinn Víglundsson, félags- og húsnæðismálaráðherra, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðbogarsvæðinu, og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri voru viðstödd opnunina. Starfsemi Bjarkarhlíðar felst í samhæfðri þjónustu og ráðgjöf fyrir fullorðna einstaklinga sem beittir hafa verið ofbeldi s.s. kynferðisofbeldi, ofbeldi í nánum samböndum eða eru brotaþolar í mansalsmálum og/eða vændi. Hægt sé að nálgast þjónustuna alla á einum stað. Einnig verður veitt fræðsla um eðli og afleiðingar ofbeldis, auk námskeiða um birtingamyndir ofbeldis.

„Það er ánægjulegt að geta tekið þátt í opnun miðstöðvarinnar þó það sé ekki gleðilegt í sjálfu sér að hennar sé þörf. Hér verður tekið með þverfaglegum hætti á afleiðingum og eftirköstum ofbeldis þar sem fólk úr margvíslegum geirum kemur saman til að veita þjónustu til þolenda. Ástæður ofbeldisins verða einnig greindar en við getum öll verið sammála um að það þurfi að ráðast á rótum vandans,“ sagði dómsmálaráðherra við opnunina.

Ragna Björg Guðbrandsdóttir, verkefnastjóri Bjarkarhlíðar, veitti starfshópnum sem stóð að stofnun miðstöðvarinnar ásamt borgarstjóra, ráðherrum og lögreglustjóra bjarkarhríslu að gjöf í tilefni opnunarinnar. Ragna Björg sagði við það tilefni að stofnun miðstöðvarinnar hefði tekist með góðri samvinnu allra aðila og nú væri hægt að vinna af fullum krafti að því mikilvæga starfi sem miðstöðin á að sinna.

Starfsemi miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis er samstarfsverkefni fjölmargra aðila.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum