Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Ný reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa í grunnskólum

· Samræmd könnunarpróf eiga að vera einstaklingsmiðuð, þ.e. laga sig að getu nemandans miðað við frammistöðu hans á prófinu.

·  Heimilt er að leggja prófin fyrir með rafrænum hætti og nýta rafrænt prófakerfi til að halda utan um prófatriði og upplýsingar um þau, prófabanka, próffyrirlagnir og prófúrlausnir.

Frá hausti 2016 hefur á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis verið unnið að breytingum á reglugerð nr. 435/2009 um framkvæmd og fyrirkomulag samræmdra könnunarprófa í 4., 7. og 10. bekk grunnskóla til að ná utan um þær ákvarðanir sem  hafa verið teknar í samræmi við lagabreytingar á grunnskólalögum samhliða lögum um Menntamálastofnun. Reglugerðin var unnin af verkefnahópi með fulltrúum úr ráðuneytinu og Menntamálastofnun. Drög að reglugerðinni voru sett í opið samráð á netinu í lok árs 2016 og komu ýmsar ábendingar og athugasemdir frá hagsmunaaðilum en almenn sátt virðist vera meðal allra aðila um reglugerðina. Vakin er athygli á því að ekki er verið að breyta hlutverki samræmdra könnunarprófa í grunnskólum.

Helstu breytingar frá gildandi reglugerð eru eftirfarandi.

·         Samræmd könnunarpróf eiga að vera einstaklingsmiðuð, þ.e. laga sig að getu nemandans miðað við frammistöðu hans á prófinu.

·         Heimilt er að leggja prófin fyrir með rafrænum hætti og nýta rafrænt prófakerfi til að halda utan um prófatriði og upplýsingar um þau, prófabanka, próffyrirlagnir og prófúrlausnir.

·         Í stað samræmdra könnunarprófa að hausti í 10. bekk er ákvæði um samræmd könnunarpróf að vori í 9. bekk grunnskóla.

·         Heildareinkunnir skulu gefnar í bókstöfunum A, B+, B, C+, C og D í samræmi við matsviðmið aðalnámskrár grunnskóla.

·         Heimild skólastjóra grunnskóla til að veita nemendum undanþágu er þrengd, í ljósi þess að um einstaklingsmiðuð próf er að ræða.

·         Menntamálastofnun er ekki skylt að birta prófatriði samræmdra könnunarprófa hverju sinni enda gert ráð fyrir að hægt sé að endurnýta þau við að þróa prófabanka fyrir einstaklingsmiðuð samræmd könnunarpróf.

·         Í stað birtingar prófatriða skal Menntamálastofnun birta opinberlega dæmi um prófatriði úr öllum námsgreinum og námsþáttum ásamt lýsingu á þeirri hæfni sem metin er.

·         Sett eru nauðsynleg ákvæði um persónuvernd vegna vinnslu gagna og meðferð viðkvæmra persónuupplýsinga.

·         Nýtt ákvæði er um skipan ráðuneytis á þriggja manna sérfræðingahópi sem m.a.  skal fylgjast með framkvæmd og þróun samræmdra könnunarprófa.

Með lögum nr. 91/2015 um Menntamálastofnun var samhliða breytt ákvæðum 39. gr. grunnskólalaga um samræmd könnunarpróf á þann hátt að prófin skyldu haldin í 4. og 7. bekk og á unglingastigi en ekki er bundið í lögum lengur að próf skuli haldin í 10. bekk grunnskóla.  Í kjölfar setningar laga um Menntamálastofnun ákvað ráðherra að fenginni tillögu frá Menntamálastofnun, að breyta fyrirkomulagi lögbundinna samræmdra könnunarprófa í grunnskólum. Í fréttatilkynningu um þessa ákvörðun var tekið fram að samræmd könnunarpróf verði lögð fyrir með rafrænum hætti frá og með haustinu 2016 og að samræmd könnunarpróf færist til vors í 9. bekk og að nemendur 10. bekk  munu þreyta próf vorið 2017 á sama tíma og 9. bekkingar. Með því að gera prófin rafræn gefst kostur á fjölbreyttari leiðum við að prófa markmið skólastarfs, stytta vinnslutíma miðlægra prófa, bjóða upp á sveigjanleika í fyrirlögn, auðvelda stuðningsúrræði fyrir nemendur með sérþarfir og gefa kost á að laga próffyrirlögn að hæfni nemenda. Með því að færa 10. bekkjar könnunarprófið í 9. bekk gefst nemendum, forráðamönnum þeirra og kennurum meira svigrúm til þess að nýta sér niðurstöðurnar til að bregðast við og móta áherslur í námi í 10. bekk.  Jafnframt þessum breytingum gerir Menntamálastofnun könnunarprófin hæfnimiðaðri í takt við áherslur í aðalnámskrá grunnskóla frá 2013. Miðað er við að áfram verði tvö könnunarpróf í 4. og 7. bekk, þ.e. í íslensku og stærðfræði. Í 9. bekk verður metin hæfni í íslensku, stærðfræði og ensku.

Reglugerðin er aðgengileg á vef Stjórnartíðinda

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn