Hoppa yfir valmynd
7. mars 2017 Utanríkisráðuneytið

Óskað eftir styrkumsóknum frá borgarasamtökum vegna mannúðarverkefna

Utanríkisráðuneytið óskar eftir styrkumsóknum frá íslenskum borgarasamtökum vegna mannúðarverkefna. Umsóknarfrestur er til og með 18. apríl 2017.

Ákveðið hefur verið að veita allt að 100 milljónum króna til mannúðarverkefna borgarasamtaka. Við úthlutun verður sérstaklega litið til verkefna sem bregðast við neyð fólks á flótta undan átökum, sem og verkefna tengdum ástandinu í Sýrlandi.

Við þessa styrkúthlutun verður farið eftir verklagsreglum utanríkisráðuneytisins um samstarf við borgarasamtök frá 2015. Í reglunum er að finna vinnulag og önnur viðmið sem notuð eru við mat á umsóknum auk skilyrða sem borgarasamtök verða að uppfylla til að geta sótt um styrki.

Horft er til gæða og væntanlegs árangurs verkefna. Sérstök athygli er vakin á því að búist er við að verkefnin svari alþjóðlegum neyðarköllum (e. appeal), s.s. frá samræmingarskrifstofu Sameinuðu þjóðanna vegna mannúðarmála (UNOCHA – www.unocha.org) og Alþjóðaráði Rauða krossins og Rauða hálfmánans (ICRC – www.icrc.org). Einnig er mikilvægt að inngrip og framkvæmd verkefna íslenskra borgarasamtaka sé samhæft aðgerðum annarra á vettvangi. Litið er á skilvirkni og kröfur gerðar um vönduð og fagleg vinnubrögð, sem eru lykilatriði við ákvarðanatöku um framlög. Við mat á umsóknum verður m.a. stuðst við viðmið SPHERE handbókarinnar til að tryggja lágmarksaðstoð við haghafa.

Verklagsreglur utanríkisráðuneytisins byggjast m.a. á alþjóðlegri stefnu og starfsaðferðum við styrkveitingar úr opinberum sjóðum og stefnumiðum ráðuneytisins í samstarfi við íslensk borgarasamtök í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð 2015-2019

Einungis verður tekið við umsóknum sem skilað er inn á þar til gerðum eyðublöðum og sendar eru á netfangið [email protected] fyrir kl. 23:59 þann 18. apríl 2017. 

Nánari upplýsingar um verklagsreglurnar og aðrar hagnýtar upplýsingar  

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum