Hoppa yfir valmynd
9. mars 2017 Utanríkisráðuneytið

Endurnýjun samstarfssamnings við UNICEF

Guðlaugur Þór og Bergsteinn Jónsson
Guðlaugur Þór og Bergsteinn Jónsson

Utanríkisráðuneytið og Landsnefnd Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) endurnýjuðu í dag samstarfssamning til næstu þriggja ára. Skrifað var undir samninginn í heimsókn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra til Miðstöðvar Sameinuðu þjóðanna að Laugavegi 176 í Reykjavík en þar eru til húsa Landsnefndir UNICEF og UN Women, auk Félags Sameinuðu þjóðanna.

„Landsnefndirnar hafa verið öflugir og góðir samherjar við upplýsingagjöf á starfi Sameinuðu þjóðanna og því mikilvæga fjáröflunarstarfi sem fram fer innanlands á málasviðum þeirra eins og þorri almennings hefur tekið eftir, nú síðast með árangursríkri herferð UNICEF í þágu barna í austurhluta Nígeríu og Suður-Súdan. Danshátíð UN Women, Milljarður rís, gegn ofbeldi í garð kvenna er öllum líka í fersku minni,“ segir Guðlaugur Þór.

Utanríkisráðuneytið, Landsnefndirnar tvær og Félag Sameinuðu þjóðanna gera með sér samstarfssamninga til þriggja ára um upplýsingagjöf og kynningarmál. Samningurinn sem undirritaður var í dag milli ráðuneytisins og UNICEF hefur það markmið að skapa grundvöll fyrir samráð og samvinnu utanríkisráðuneytisins og landsnefndarinnar, stuðla að umfjöllun um alþjóðamál með hugsjónir og markmið UNICEF að leiðarljósi, fjalla um þátttöku Íslands hvað varðar málefni barna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, efla umfjöllun á Íslandi um málefni barna í þróunarríkjum og efla þátt Íslands í málefnastarfi UNICEF.

Stuðningur ráðuneytisins við starfsemi Barnahjálpar SÞ er þríþættur, auk samningsins við Landsnefndina felur hann bæði í sér almenn og sértæk framlög til samtakanna. Almennu framlögin hækkuðu á síðasta ári um 16% og nema nú 875 þúsundum bandarískra dala á ári, eða jafnvirði 96 milljóna króna. Ennfremur er Ísland stærsti einstaki stuðningsaðili þriggja ára verkefnis í Sambesíufylki í Mósambík þar sem UNICEF byggir upp vatns-, hreinlætis- og salernisaðstöðu í sex héruðum sem eru meðal þeirra fátækustu í landinu. Sá stuðningur nemur á þremur árum 3,5 milljónum Bandaríkjadala eða tæpum 400 milljónum íslenskra króna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum