Hoppa yfir valmynd
12. mars 2017 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Verkefnisstjórn um endurmat peningastefnu skipuð

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að unnið verði að því að draga úr þeim miklu sveiflum sem verið hafa á gengi krónunnar. Slíkar sveiflur stuðli að óstöðugleika og skýri að nokkru hvers vegna vextir eru að jafnaði hærri hér á landi en erlendis. Því verði forsendur peninga‐ og gjaldmiðilsstefnu Íslands endurmetnar, meðal annars í ljósi breytinga sem orðið hafa á efnahagsmálum þjóðarinnar með stórsókn ferðaþjónustunnar og ört vaxandi gjaldeyrisforða.

Markmið endurskoðunarinnar er að finna þann ramma peninga- og gjaldmiðilsstefnu sem til lengri tíma litið er heppilegastur til að styðja við efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika með tilliti til hagvaxtar, verðbólgu, vaxta, gengis og atvinnustigs. Í endurskoðuninni verður rammi núverandi peningastefnu metinn, greint hvaða umbætur sé hægt að gera á peningastefnunni að því gefnu að halda skuli í megineinkenni núverandi peningastefnu sem byggir á verðbólgumarkmiði og greina aðra valkosti við peningamálastjórnun, svo sem útfærslur á gengismarkmiði, til dæmis með hefðbundnu fastgengi eða fastgengi í formi myntráðs.

Þriggja manna verkefnisstjórn hefur verið skipuð. Í henni eiga sæti Dr. Ásgeir Jónsson hagfræðingur, Ásdís Kristjánsdóttir hagfræðingur og Illugi Gunnarsson hagfræðingur og fyrrverandi ráðherra. Tinna Finnbogadóttir, hagfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, mun starfa með verkefnisstjórninni. Með verkefnisstjórn vinna einnig tengiliðir forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og Seðlabanka Íslands.

Endurskoðunin heyrir undir ráðherranefnd um efnahagsmál sem mun funda reglulega um þessa vinnu með seðlabankastjóra. Þá verður víðtækt samráð við innlenda og erlenda sérfræðinga, þingflokka, aðila vinnumarkaðarins, háskólasamfélagið og aðra hagsmunaðila. Stefnt er að því að niðurstaða liggi fyrir á þessu ári.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum