Hoppa yfir valmynd
15. mars 2017 Dómsmálaráðuneytið

Mikilvægt og krefjandi starf sem kallar ásíaukna sérhæfingu

Frá ráðstefnu um slys og álag á lögreglu. - mynd
Álag og fjölgun slysa, vinnuslys hjá lögreglunni og fleira var umræðuefni ráðstefnu Vinnueftirlits ríkisins og nokkurra samstarfsaðila, sem haldin var í gær. Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, flutti ávarp við setningu ráðstefnunnar og sagði hún brýnt að taka alvarlega ábendingar um aukið álag og slys meðal lögreglumanna.

Auk Vinnueftirlitsins stóðu að ráðstefnunni ríkislögreglustjóri, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Landssamband lögreglumanna og innanríkisráðuneyti. Í upphafi ávarps síns sagði ráðherra að félög lögreglumanna hefðu í byrjun síðasta árs lýst áhyggjum sínum af miklu álagi á lögreglumenn og hafi talið öryggi þeirra ógnað undirmönnunar á vöktum. Álag á þeim mannskap sem eftir er komi m.a. fram í auknum veikindum og auknum vinnuslysum. Þá hafi lögreglan misst marga hæfa lögreglumenn til annarra starfa. Ráðherra sagði að taka bæri þessar ábendingar til gaumgæfilegrar skoðunar.

„Virðing fyrir störfum lögreglunnar er mikil meðal þjóðarinnar. Sú virðing sprettur ekki af sjálfu sér, heldur á rætur að rekja til þess, að lögreglumenn vinna störf sín af alúð og árvekni og af virðingu fyrir þeim hagsmunum sem þeim er trúað fyrir,“ sagði ráðherra meðal annars. Hún sagði starf lögreglunnar kröfuhart, sú krafa væri gerð til lögreglunnar að hún sé fær um að bregðast við ógnum sem að steðja. Hún þurfi að hafa tiltæk úrræði, áætlanir og rannsóknarheimildir og ráða yfir mannafla, búnaði, þjálfun og þekkingu sem geri henni kleift að takast á við þær áskoranir sem fylgja síbreytilegum og flóknum samtíma.

Aukin fjárframlög

Hún sagði aðhald og niðurskurð hafa valdið áhyggjum en að undanfarin ár hafi stjórnvöld lagt höfuðáherslu á að styrkja starfsemi lögreglunnar og hafi fjárveitingar verið auknar sem nemi hátt í  tveimur milljörðum króna. Fyrir árið 2017 væri Alþingi búið að samþykkja varanlegt 469 milljóna króna viðbótarframlag til löggæslumála og 400 milljónir í eitt skipti. „Við vonumst til þess að með þessum aðgerðum verði unnt að fjölga stöðugildum lögreglumanna um allt að 31 á þessu ári og þar fyrir utan fjölgi um allt að 9 stöðugildi í öðrum störfum hjá lögreglu.“

Ráðherra sagði starf lögreglunnar kalla á síaukna sérhæfingu vegna tækniþróunar og hnattrænna áhættuþátta sem aftur krefðust beinnar þátttöku í alþjóðlegri lögreglusamvinnu, aðgerðarþjálfunar, rannsóknar flókinna sakamála meðal annars á sviði tölvusamskipta. Einnig gat hún um löggæsluáætlun sem nú væri á lokastigi þar sem væru skilgreind öryggis- og þjónustustig og að við innleiðingu löggæsluáætlunar færi fram áhættugreining á starfsemi lögreglunnar með tilliti til styrkleika og veikleika lögreglukerfisins, m.a. við mat á mannaflaþörf og áhersluþætti.

Í lok ávarps síns gerði Sigríður Á. Andersen menntun lögreglumanna að umfjöllunarefni og þær breytingar sem hefðu verið gerðar á lögreglunámi síðastliðið haust. „Menntun á háskólastigi og framhaldsmenntunin gerir líka kleift að auka enn á sérhæfingu lögreglumanna ekki síst við rannsóknir á þeim ólíku afbrotasviðum sem koma upp í nútímaþjóðfélagi. Afbrotamenn eru slyngir og útsjónarsamir í þeim ásetningi sínum að fremja afbrot, nýta sér tækni og búnað til iðju sinnar. Þessu þarf lögreglan að mæta með því að vera enn slyngari og útsjónarsamari en þeir til að uppræta iðju afbotamanna. Það gerist aðeins með þekkingu og reynslu.“

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum