Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Ártúnsskóli fær grænfánann í fjórða sinn

Frá afhendingu grænfánans

Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, afhenti á dögunum Ártúnsskóla í Reykjavík grænfána til staðfestingar á umhverfisstarfi skólans. Þetta er í fjórða sinn sem Ártúnsskóli flaggar grænfánanum.

Ártúnsskóli er einn af um 230 skólum á Íslandi sem taka þátt í verkefninu Skólar á grænni grein en það miðar að því að auka umhverfismennt og styrkja umhverfisstefnu í skólum. Þeir skólar sem vilja komast á græna grein í umhverfismálum leitast við að stíga sjö skref, en þau tengjast verkefnum sem ætlað er efla vitund nemenda, kennara og annarra starfsmanna skólans um umhverfismál. Þegar því marki er náð fá skólarnir leyfi til að flagga Grænfánanum næstu tvö ár en sú viðurkenning fæst endurnýjuð ef skólarnir halda áfram góðu starfi.

''Í Ártúnsskóla hafa allir bekkir skólans sett sér markmið. Sem dæmi hefur einn bekkjanna sett sér að draga úr notkun einnota umbúða, annar vinnur að því að jarðgera lífrænar matarleifar og rækta kartöflur og enn annar ber ábyrgð á grenndarskógi skólans. Þá vinna börn skólans með mengunarmál, matarsóun, sorpflokkun og hreyfingu svo fátt eitt sé nefnt.

Í heimsókn sinni í Ártúnsskóla fékk ráðherra kynningu á umhverfissáttmála skólans, horfði á brot úr leikriti um orkumál og á myndband sem skólinn sendi inn sem umsókn um grænfánann. Að loknu ávarpi og spjalli við krakkana í skólanum afhenti ráðherra skólanum formlega grænfánann og tilheyrandi viðurkenningarskjal.

Skólar á grænni grein er rekið af Landvernd, ''með stuðning frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Um er að ræða stærsta menntaverkefni um umhverfi og sjálfbærni á Íslandi og á heimsvísu, en 64 lönd eru þátttakendur í verkefninu sem nær til um 50 þúsund skóla og 15 milljóna nemenda um heim allan.

Frá afhendingu grænfánans

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn