Hoppa yfir valmynd
24. mars 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Ávarp heilbrigðisráðherra á vorfundi heilbrigðisstofnana

Pallborðsumræður á vorfundi Landssambands heilbrigðisstofnana 2017 - mynd

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra ræddi um stefnumótun og áherslur sínar í heilbrigðismálum á tveggja daga vorfundi Landssambands heilbrigðisstofnana sem hófst á Selfossi í gær.

Skipulag heilbrigðisþjónust á Íslandi var viðfangsefni fundarins í gær. Auk heilbrigðisráðherra voru frummælendur Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í félagsfræði við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands sem fjallaði um stefnu og skipulag heilbrigðisþjónustu frá sjónarhóli notenda. Hjörtur Kristjánsson, framkvæmdastjóri lækninga og Sigrún Kristjánsdóttir, yfirljósmóðir, bæði við Heilbrigðisstofnun Suðurlands fjölluðu um stefnu í heilbrigðismálum út frá sjónarhóli veitenda með áherslu á aðgengi að heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni og Birgir Jakobsson landlæknir ræddi um forgangsverkefni í heilbrigðisþjónustu. Í lok fundarins fóru fram umræður í pallborði.

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra sem hóf fundinn, sagðist í ræðu sinni sinni ekki hafa í hyggju að bylta heilbrigðiskerfinu með róttækum breytingum, hvorki varðandi skipulag né rekstrarform: „Við höfum á að byggja ákveðið grundvallarskipulag sem er í meginatriðum gott og engin ástæða til að kollvarpa því, þótt ýmsu megi breyta til að laga þjónustuna betur að þörfum notenda.“

Áhersla á samstarf og samvinnu og heildstæða sýn á heilbrigðiskerfið var leiðarstef í ræðu ráðherra og einnig áhersla á að nýta þá greiningarvinnu sem þegar lægi fyrir við stefnumótun í heilbrigðismálum, þar sem margir hefðu lagt vinnu sína og þekkingu af mörkum:

„...ég hef hug á að sett verið fram heildstæð stefna í heilbrigðismálum þar sem allt er undir, jafnt grunnþjónustan í heilsugæslunni, sérfræðiþjónustan, opinbera stofnanaþjónustan, sérhæfða sjúkrahúsþjónustan, endurhæfingarstarfsemin og heilbrigðisþjónusta fyrir aldraða. Það verður að skoða þetta kerfi í heild, og allir þættir þess verða að vinna saman ef við ætlum að tryggja í verki samþætta þjónustu fyrir sjúklinga með þeirri heildarsýn sem liggur slíkri samþættingu til grundvallar.

Varðandi stefnumótunina, þá vitum við í meginatriðum hverju við viljum ná fram: Við viljum heildstæða, skilvirka og örugga þjónustu, sem veitt er á viðeigandi þjónustustigi miðað við þarfir hvers og eins – og við viljum að sjálfsögðu að þeim fjármunum sem varið er til heilbrigðisþjónustu sé varið skynsamlega og að þeir nýtist sem allra best.

Það er einnig grundvallaratriði að tryggja eins og kostur er jafnt aðgengi landsmanna að heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag, búsetu eða öðrum þáttum, eins og ég kem nánar að síðar.

Ég  held að við getum öll verið nokkuð sammála um hvert við eigum að stefna – en spurningin sem við þurfum einkum að glíma við er hvernig náum við best þessum markmiðum. Um það tel ég að sú heildstæða stefnumótun sem ég vil að ráðist verði í eigi að snúast. Og þar höfum við – eins og ég sagði áðan – á mörgu að byggja. „

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum