Dómsmálaráðuneytið

Endurnýjuðu yfirlýsingu um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess

Samstarfsyfirlýsingunni fagnað. - mynd

Mennta- og menningarmálaráðherra, heilbrigðisráðherra, dómsmálaráðherra og félags- og jafnréttismálaráðherra skrifuðu í dag undir samstarfsyfirlýsingu um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Með henni eru ráðherrarnir að staðfesta framhald á vinnu samkvæmt áætlun um margs konar aðgerðir gegn ofbeldi sem hófst árið 2014.

Stýrihópur um aðgerðir gegn ofbeldi, sem skipaður er fulltrúum ráðuneytanna undir forystu velferðarráðuneytis, hefur síðustu misseri unnið að landssamráði, svæðisbundnu samráði og aðgerðaáætlun samkvæmt yfirlýsingunni frá 2014. Áætlunin tekur til þeirra þátta sem samstarfsyfirlýsingin kveður á um: Vakningu, sem felur í sér forvarnir og fræðslu; viðbrögðum, sem eru verklag og málsmeðferð, og valdeflingu, sem er styrking í kjölfar ofbeldis.

Ráðherrarnir eru sammála um að halda verkefninu áfram með áherslu á samráð á landsvísu milli félagsþjónustu, barnaverndaryfirvalda, mennta- og heilbrigðiskerfis, lögreglu og ákæruvalds, í því skyni að efla aðgerðir gegn ofbeldi í íslensku samfélagi. Samstarfinu er einkum ætlað að ná til ofbeldis gegn börnum, ofbeldis í nánum samböndum, kynferðislegs, andlegs og líkamlegs ofbeldis og ofbeldis gagnvart fötluðu fólki og öðrum berskjölduðum hópum. Einnig telst hatursfull orðræða, sem hvetur til ofbeldis eða annarrar refsiverðrar háttsemi sem er lítillækkandi eða ógnandi í garð einstaklinga eða hópa fólks, til ofbeldis sem yfirlýsing þessi tekur til.Fjórir ráðherrar skrifuðu undir samstarfsyfirlýsinguna, frá vinstri: Þorsteinn Víglundsson, Kristján Þór Júlíusson, Óttarr Proppé og Sigríður Á. Andersen.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn