Hoppa yfir valmynd
28. mars 2017 Heilbrigðisráðuneytið

Ráðherra styrkir félagasamtök sem starfa að heilbrigðismálum um 72 milljónir kr.

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra hefur ákveðið úthlutun velferðarstyrkja árið 2017, samtals um 72 milljónir króna. Styrkirnir renna til 28 verkefna á vegum íslenskra félagasamtaka sem starfa á sviði heilbrigðismála og lúta einkum að forvarnar- fræðslu- og ráðgjafarstarfi.

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra segir styrkina bæði til þess fallna að efla starf frjálsra félagasamtaka en einnig til að veita þeim viðurkenningarvott: „Frjáls félagasamtök leggja mikilvæga vinnu af mörkum á sviði heilbrigðismála. Fjöldi fólks sinnir þessu starfi í sjálfboðavinnu og leggur fram krafta, reynslu og þekkingu. Þetta er vinna sem ekki er hægt að verðleggja til fulls og er á svo margan máta ómetanleg fyrir samfélagið.“

Hæstu styrkina að þessu sinni hlutu Krabbameinsfélag Íslands, Hjartaheill – landssamtök hjartasjúklinga, SÍBS og Gigtarfélag Íslands. Fær hvert þessara félaga 6,5 milljónir króna til að sinna stuðningi, færðslu og ráðgjöf við félagsmenn. Rauði krossinn í Reykjavík fær 6,0 milljónir króna fyrir skaðaminnkunarverkefnið frú Ragnheiði.

Auglýst var eftir umsóknum um velferðarstyrki á sviði heilbrigðismála í janúar síðastliðnum. Úthlutun fjárins byggist á reglum um styrki af safnliðum fjárlaga velferðarráðuneytisins sem veittir eru ár hvert. Auk verkefna- og rekstrarstyrkja eru veittir styrkir til félagasamtaka sem starfa á sviði forvarna, fræðslu og endurhæfingar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum