Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Þjóðskjalasafn Íslands fagnar 135 ára afmæli

Í tilefni afmælisins efndi Þjóðskjalasafn til hátíðardagskrár þar sem forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, og mennta- og menningarmálaráðherra, Kristján Þór Júlíusson, héldu ávörp. Forseti Íslands fékk að gjöf afrit teikninga af Bessastöðum og mennta- og menningarmálaráðherra fékk afhent fyrsta eintak rits um Manntalið 1703 sem kom út á afmælisdaginn, en það er á skrá UNESCO yfir Minni heimsins.

Mynd-1-a-vef-og-fb
Mynd-1-a-vef-og-fb

Mynd-2-a-vef-og-fbÍ ávarpi sínu rifjaði mennta- og menningarmálaráðherra upp stofnun Þjóðskjalasafns sem miðast við auglýsingu landshöfðingja um starfrækslu landsskjalasafns þann 3. apríl 1882. Benti ráðherra á að í umræddri auglýsingu þar var svo fyrir mælt, að skjalasöfn skyldu geymd hvert í sínu herbergi á kirkjulofti Dómkirkjunnar í Reykjavík og því megi segja að undir súðum dómkirkjunnar hafi verið lagður grunnurinn að nokkrum merkustu menningarstofnunum sem við Íslendingar státum okkur af í dag.

Þá ítrekaði ráðherra að hann hefði engan hug á að nýta þá heimild sem er að finna í fjárlögum þessa árs til að selja húsnæði Þjóðskjalasafnsins og einnig að hann muni leitast við að stuðla að því eftir megni að framkvæmdaáætlun um endurbætur og uppbyggingu í þágu Þjóðskjalasafnsins nái fram að ganga.

Ávarp ráðherra má lesa í heild sinni hér .

Á efri mynd má sjá mennta- og menningarmálaráðherra taka við riti um Manntalið 1703 úr höndum Eiríks G. Guðmundssonar þjóðskjalavarðar.

Á neðri mynd má sjá forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannesson, og Kristján Þór, mennta- og menningarmálaráðherra, skoða teikningar af Bessastöðum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn