Velferðarráðuneytið

Ræddu stöðu húsnæðis- samvinnufélaga og húsnæðismál í Eyjafirði

Frá fundinum í velferðarráðuneytinu - mynd

Fulltrúar húsnæðissamvinnufélagsins Búfestis á Akureyri áttu í dag fund með Þorsteini Víglundssyni, félags- og húsnæðismálaráðherra. Rætt var um stöðu húsnæðismála á starfssvæði félagsins, starfsumhverfi húsnæðissamvinnufélaga í núgildandi lagaumhverfi og úrbætur á því sem fulltrúar Búfestis telja nauðsynlegar.

Til fundarins komu Benedikt Sigurðarson framkvæmdastjóri, Guðlaug Kristinsdóttir stjórnarformaður og Hólmgrímur Bjarnason endurskoðandi.

Húsnæðisfélagið Búfesti starfar á Akureyri og nærsveitum. Fulltrúar Búfestis lýstu því að á starfssvæði félagsins sé farið að bera á húsnæðisskorti og ekki fyrirséð að það muni breytast á næstunni. Þau sögðu vandann margþættan og felast m.a. í skipulagi lóðaúthlutana til fjárfesta og verktaka sem viðhaldi skorti og byggi fyrst og fremst dýrt íbúðarhúsnæði til að hámarka framlegð. Enn fremur séu ekki fyrir hendi forsendur til húsnæðisuppbyggingar á hefðbundnum markaðsforsendum.

Fulltrúarnir báru meðal annars fram þá ósk að húsnæðissamvinnufélögum á borð við Búfesti sem rekin væru án hagnaðarsjónarmiða, yrði gert auðveldara að fá stofnframlög sem gerðu mögulegt að fjármagna samhliða uppbyggingu búseturéttaríbúða og leiguíbúða. Bæði myndi það leiða til hagkvæmari reksturs og tryggja betur félagslegan fjölbreytileika þar sem byggt væri á grundvelli stofnframlaga.

Á fundinum var einnig rætt um fjármögnun Íbúðalánasjóðs og lýstu fulltrúar Búfestis þeirri skoðun að æskilegt væri að sjóðurinn myndi veita lán fyrir allt að 90% af markaðsvirði eigna. Enn fremur var rætt um vaxtakjör Búfestis og ýmis fleiri málefni varðandi stöðu húsnæðismála á landsbyggðinni.


Á myndinni að ofan eru Benedikt Sigurðarson, Guðlaug Kristinsdóttir, Hólmgrímur Bjarnason, Þorsteinn Víglundsson, Karl Pétur Jónsson, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir og Rún Knútsdóttir.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn