Forsætisráðuneytið

Ný ráðuneyti dómsmála og samgöngu- og sveitarstjórnarmála sett á fót.

Forseti Íslands hefur í dag staðfest tillögur forsætisráðherra um breytt skipulag Stjórnarráðs Íslands. Breytingarnar fela í sér að í stað innanríkisráðuneytis komi annars vegar dómsmálaráðuneyti og hins vegar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, en með því fjölgar ráðuneytum úr átta í níu. Hin nýju ráðuneyti munu taka til starfa 1. maí nk. 

Samkvæmt tillögunum munu málefnasvið hinna nýju ráðuneyta verða tilgreind með sama hætti og störfum er nú skipt með dómsmálaráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að því undanskildu að málefni Þjóðskrár Íslands og Yfirfasteignamatsnefndar, munu eftir breytinguna tilheyra samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. 

Samhliða eru gerðar breytingar á verkaskiptingu milli forsætisráðuneytisins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins er lúta að framkvæmd laga um Seðlabanka Íslands. Breytingarnar fela í sér að setning reglna um reikningsskil og ársreikning bankans, sbr. 4. mgr. 32. gr. laga um Seðlabanka Íslands, verður á hendi fjármála- og efnahagsráðuneytis, svo og samskipti við bankann í tengslum við ákvörðun um eiginfjármarkmið hans, ráðstöfun hagnaðar og samkomulags um framkvæmd innköllunar samkvæmt 34. gr. laganna. Þá mun ráðuneytið jafnframt fara með tilgreint hlutverk samkvæmt ákvæði til bráðabirgða III í lögunum og skipa í sjóðsráð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 21. gr. sömu laga. Önnur ákvæði laganna verða sem fyrr á ábyrgðarsviði forsætisráðuneytisins. 

Sjá nánar neðangreinda forsetaúrskurði á vef Stjórnartíðinda:

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn