Hoppa yfir valmynd
7. apríl 2017 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ráðstafanir í lánsfjárstýringu ríkissjóðs skila umtalsverðum sparnaði í vaxtakostnaði

Eins og fram kom í tilkynningu ráðuneytisins 5.apríl sl. hefur ríkissjóður keypt til baka eigin skuldabréf að nafnvirði 876,9 milljónir Bandaríkjadala eða sem svarar til u.þ.b. 100 ma.kr. Þessi ráðstöfun er liður í lánsfjárstýringu ríkissjóðs og er tilgangurinn með henni að draga umtalsvert úr vaxtakostnaði þegar litið er til næstu fimm ára og styrkja þannig stöðu ríkisfjármálanna. Ríkissjóður fjármagnaði uppkaupin af gjaldeyrisinnistæðum sínum í Seðlabanka Íslands. Af þeim sökum hefur þessi ráðstöfun ekki áhrif á nettó skuldastöðu ríkisins samkvæmt skuldareglu laga um opinber fjármál en brúttó skuldir að frátöldum innistæðum lækka hins vegar um 4% af vergri landsframleiðslu.

Ríkissjóður á útistandandi tvær erlendar skuldabréfaútgáfur sem ráðist var í til að auka gjaldeyrisvaraforða landsins í vörslu Seðlabankans. Sú fyrri fór fram á árinu 2012 og nam 1 milljarði Bandaríkjadala með gjalddaga árið 2022. Síðari skuldabréfaútgáfan er frá árinu 2014 en hún nam 750 milljónum evra og er á gjalddaga 2020. Bæði skuldabréfin bera fasta vexti, dollarabréfin 5,875% en evrubréfin 2,5%. Andvirði útgáfunnar hefur verið varðveitt á gjaldeyrisreikningum ríkissjóðs í Seðlabankanum sem skilar afar lágri ávöxtun, eða um 0,25%. Í ljósi þessa óhagstæða vaxtamismunar og vegna betra aðgengis ríkissjóðs að erlendum fjármálamörkuðum var það mat fjármála- og efnahagsráðherra að verulegur ávinningur gæti hlotist af því að gera eigendum skuldabréfanna tilboð um uppkaup þrátt fyrir að greiða þyrfti yfirverð fyrir bréfin. Þessi ákvörðun var einnig tekin með hliðsjón af því að Seðlabankinn hefur að undanförnu byggt hratt upp mikinn gjaldeyrisforða, yfir 800 ma.kr. Því er ekki sama þörf og áður fyrir skuldsettan forða á vegum ríkissjóðs.

Samkvæmt niðurstöðum útboðsins liggur fyrir að eigendur tæplega 88% af andvirði skuldabréfanna hafa samþykkt að ganga að tilboði ríkissjóðs. Áætlað er að kostnaður við uppkaup bréfanna nemi um 15,3 ma.kr. Á móti vegur lækkun vaxtakostnaðar um 4,4 ma.kr. á árinu 2017 og um 5,9 ma.kr. árlega á árunum 2018-2022. Það yfirverð og sá kostnaður sem fylgir uppkaupunum færist sem fjármagnskostnaður á yfirstandandi ári og er í raun að hluta fyrirframgreiddur fjármagnskostnaður næstu ára. Samtals hækkar fjármagnskostnaður ríkissjóðs því um 10,9 ma.kr. á þessu ári. Á móti sparast vaxtakostnaður af skuldabréfunum sem er hátt í 6% á ári og munu uppkaupin því hafa jákvæð áhrif á vaxtajöfnuð næstu fimm árin. Núvirtur ábati ríkissjóðs af þessari ráðstöfun er metinn á liðlega 11 ma.kr. yfir tímabilið þar til skuldabréfin hefðu fallið á gjalddaga.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum