Hoppa yfir valmynd
11. apríl 2017 Heilbrigðisráðuneytið

Reglugerðir um heilbrigðiskostnað fólks í nýju greiðsluþátttökukerfi

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra hefur undirritað reglugerð um greiðslur fólks fyrir heilbrigðisþjónustu í nýju greiðsluþátttökukerfi sem tekur gildi 1. maí næstkomandi, ásamt reglugerð um tilvísanir barna. Nýtt kerfi ver fólk fyrir háum útgjöldum vegna heilbrigðisþjónustu.

Reglugerðirnar eru settar með stoð í lögum um sjúkratryggingar í samræmi við breytingar sem á þeim voru gerðar með lögum frá Alþingi 2. júní 2016. Með lagabreytingunni var kveðið á um innleiðingu á nýju og gjörbreyttu greiðsluþátttökukerfi sjúkratryggðra vegna heilbrigðisþjónustu hér á landi og munu landsmenn greiða samkvæmt nýju kerfi frá 1. maí næstkomandi.

Niðurgreiðslur hins opinbera aukast um 1,5 milljarð kr. 

Nýja greiðsluþátttökukerfið er jöfnunarkerfi sem hefur það meginmarkmið að verja þá sem mest þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda fyrir háum útgjöldum, draga úr útgjöldum barnafjölskyldna og styrkja heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað fólks í heilbrigðiskerfinu. Jöfnunin felur í sér að þeir sem mikið þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda og hafa greitt umtalsverðan kostnað í núverandi kerfi munu greiða minna en áður. Hinir, sem lítið þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda, munu hins vegar greiða meira en áður. Á heildina litið lækkar hlutdeild sjúkratryggðra í heilbrigðiskostnaði í nýju kerfi, þar sem ríkið leggur fram aukna fjármuni til greiðsluþátttöku hins opinbera sem nemur 1,5 milljarði króna á ársgrundvelli.

Hámarksþak á greiðslur sjúklinga

Sett eru þök á hámarksútgjöld fólks í nýju kerfi. Lífeyrisþegar og börn greiða minnst. Eftir að nýja kerfið tekur gildi munu aldraðir og öryrkjar greiða að hámarki 46.467 kr. á tólf mánaða tímabili. Greiðslur sjúklings fyrir heilbrigðisþjónustu reiknast honum til afsláttar næst þegar hann þarf á þjónustu að halda. Lífeyrisþegi mun því aldrei greiða meira en 16.400 kr. á mánuði.

Þegar nýja kerfið tekur gildi 1. maí næstkomandi verður horft til greiðslusögu þess mánuðina á undan og reiknast hún til afsláttar. Lífeyrisþegi sem hefur áunnið sér fullan afslátt þegar að nýja greiðsluþátttökukerfið tekur gildi og þarf í hverjum mánuði að sækja sér heilbrigðisþjónustu sem veitir honum rétt á hámarksafslætti greiðir á 12 mánaða tímabili að hámarki 32.800 kr. á 12 mánaða tímabili.

Hámarksgreiðslur barna í nýju kerfi verða þær sömu og hjá lífeyrisþegum. Aftur á móti þurfa börn ekkert að greiða fyrir komu á heilsugæslu, eða til sjálfstætt starfandi heimilislæknis á samningi við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ)). Heimsókn barns til sérfræðings er án endurgjalds ef barnið er með tilvísun.

Almennir notendur (þ.e. aðrir en lífeyrisþegar og börn) munu að hámarki greiða 69.700 kr. á tólf mánaða tímabili í nýju kerfi og aldrei meira en 24.600 kr. á mánuði. Afsláttarkerfið virkar á sama hátt og hjá lífeyrisþegum (eins og lýst er hér að ofan), þannig að almennur notandi sem hefur áunnið sér fullan afslátt þegar nýja kerfið tekur gildi og þarf í hverjum mánuði að sækja sér heilbrigðisþjónustu sem veitir honum rétt á hámarksafslætti greiðir á 12 mánaða tímabili að hámarki 49.200 kr. á 12 mánaða tímabili.

Heilsugæslan fyrsti viðkomustaðurinn

Börn yngri en 18 ára greiða ekki komugjöld á heilsugæslu í nýju kerfi frekar en verið hefur. Komugjöld fólks á aldrinum 67 til 69 ára verða lækkuð úr 960 kr. í 600 kr. líkt og fyrir þá sem eru 70 ára og eldri. Almenn komugjöld verða óbreytt, 1200 kr.

Bættur hagur barnafjölskyldna

Börn með sama fjölskyldunúmer reiknast sem eitt barn í nýja greiðsluþátttökukerfinu. Það gildir því einu hvort börn í sömu fjölskyldu eru eitt, tvö eða fleiri að hámarkskostnaður vegna heilbrigðisþjónustu fyrir þau verður aldrei meiri en 46.467 á 12 mánaða tímabili. Öll heilbrigðisþjónusta fyrir börn sem fellur undir nýja greiðsluþátttökukerfið er endurgjaldslaus ef hún er veitt á grundvelli tilvísunar frá heilsugæslu eða sjálfstætt starfandi heimilislækni sem starfar samkvæmt samningi við SÍ.

Heilbrigðisþjónusta án endurgjalds

Innlögn á sjúkrahús verður endurgjaldslaus líkt og verið hefur. Sama máli gegnir um fæðingarþjónustu og mæðravernd og komur barna 0 – 18 ára á heilsugæslu eða til sjálfstætt starfandi heimilislækna á samningi við SÍ.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum