Hoppa yfir valmynd
Dómsmálaráðuneytið

Dómsmálaráðherra heimsótti sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu

Frá heimsókn ráðherra til sýslumannsins í höfuðborgarsvæðinu. - mynd

Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, heimsótti í vikunni embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu en þar undirritaði hún ásamt Þórólfi Halldórssyni, sýslumanni, árangursstjórnunarsamning við embættið.

Sýslumaður og samstarfsmenn hans sýndu dómsmálaráðherra og fylgdarliði nýtt húsnæði embættisins við Hlíðarsmára í Kópavogi en þangað fluttist embættið við sameiningu þriggja sýslumannsembætta í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði. Ljóst er að mikil ánægja ríkir á meðal starfsmanna með nýja aðstöðu sem hentar starfseminni vel og eykur skilvirkni þjónustunnar.

Þá voru nokkrir þættir starfseminnar kynntir ráðherra sérstaklega, þ.e. umgengnismál, sáttameðferðir, dagsektarmál og þinglýsingar. Þar kom meðal annars fram að sáttameðferðir embættisins í umgengnis- og dagsektarmálum ganga almennt vel og er meðalfjöldi viðtala í máli vegna sáttameðferðar 2,5. Þá lýkur flestum umgengnismálum með staðfestum samningi eða afturköllun. En ýmsar áskoranir eru til staðar og hefur ráðherra þegar kallað eftir skoðun á þeim atriðum innan sýslumannsembætta landsins og tillögur að úrbótum. Rafrænar þinglýsingar voru einnig til umræðu en mikill metnaður er á meðal starfsmanna að taka það fyrirkomulag upp sem fyrst.

Skrifað undir árangursstjórnunarsamning

Í lok heimsóknarinnar skrifuðu þau Sigríður Á. Andersen og Þórólfur Halldórsson undir árangursstjórnunarsamning ráðuneytisins og embættisins en slíkir samningar hafa verið gerðir við önnur sýslumannsembætti á síðustu misserum. Samningnum er ætlað að styrkja beitingu árangursstjórnunar hjá embættinu. Í því skyni eru settir mælikvarðar og viðmið í ýmsum þáttum starfseminnar, svo sem í stjórnsýslu og þjónustu, mannauði og fjármálum. Sýslumannsembættin skulu einnig hafa forgöngu um reglulegt samráð við sveitarfélög um fyrirkomulag og samræmingu opinberrar þjónustu í umdæmunum og gera reglulegar þjónustukannanir. Samningurinn gildir til fimm ára.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira