Hoppa yfir valmynd
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Dagur umhverfisins er í dag

Lambagilsfoss - myndHugi Ólafsson
Dagur umhverfisins er haldinn hátíðlegur 25. apríl ár hvert. Dagurinn er tileinkaður Sveini Pálssyni sem fæddist þennan dag árið 1762. Sveinn er talinn meðal fyrstu Íslendinganna sem vöktu athygli á mikilvægi þess að vernda náttúruna og ganga ekki um of á gæði hennar. Árið 1998 valdi ríkisstjórn Íslands því fæðingardag hans, 25.apríl, sem Dag umhverfisins.

Sveinn var annálaður fræðimaður, rithöfundur, læknir og ferðagarpur sem var frumkvöðull í rannsóknum á náttúru landsins og þá sérstaklega jöklunum. Vegna þessa hefur hann stundum verið nefndur fyrsti íslenski náttúrufræðingurinn.

Deginum hefur frá upphafi verið fagnað með fjölbreyttum hætti í skólum, stofnunum, hjá félagasamtökum og sveitarfélögum auk þess sem umhverfis- og auðlindaráðherra efnir til hátíðarsamkomu þar sem afhentar eru viðurkenningar fyrir framlög til umhverfismála. Kuðungurinn er þannig árlega veittur fyrirtæki sem hefur skarað fram úr í umhverfismálum og Varðliðar umhverfisins er viðurkenning sem veitt er grunnskólabörnum fyrir verkefni á sviði umhverfismála.

Vegna fundar umhverfisráðherra Evrópu sem nú stendur yfir á Möltu verður hátíðarathöfn umhverfis- og auðlindaráðherra og afhending viðurkenninganna næstkomandi föstudag.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar landsmönnum öllum innilega til hamingju með daginn.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira