Hoppa yfir valmynd
27. apríl 2017 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Fundi evrópskra umhverfisráðherra á Möltu lokið

Frá ráðherrafundinum á Möltu - mynd

Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, er nýkomin heim af fundi evrópskra umhverfisráðherra sem haldinn var á Möltu í vikunni. Á fundinum ræddu ráðherrarnir þau umhverfismál sem talin eru hvað mest aðkallandi á 21. öldinni, þ.e. loftslagsbreytingar, plastmengun í hafi og hvernig megi koma á hringrásarhagkerfi í álfunni.

Fundurinn var haldinn dagana 25. og 26. apríl og voru umræður um loftslagsbreytingar og hafið á dagskrá fyrri daginn. Var áhersla lögð á nauðsyn þess að samfara aðgerðum til að stemma stigu við losun gróðurhúsalofttegunda þyrftu löndin að búa sig undir hækkandi hitastig í heiminum. Ráðherrarnir ræddu einnig hvernig aðgerðir vegna loftslagsbreytinga gætu falið í sér efnahagslega hvata þótt megináherslan væri á mikilvægi þess að uppfylla skyldur ríkjanna gagnvart Parísarsamkomulaginu. Rætt var um hvernig óumflýjanlegt er að grípa til umfangsmikilla aðgerða vegna loftslagsbreytinga, ekki síst þar sem reiknað hefur verið út að kostnaður við aðgerðaleysi er mun meiri en kostnaður við aðgerðir. Þá var rætt um tengsl loftslagsbreytinga og hafsins og mikilvægi þess að vernda auðlindir hafsins til framtíðar.

Meginumræðuefni síðari fundardagsins var svo hringrásarhagkerfið og hvernig umhverfisráðherrarnir geti ýtt undir þróun þess í álfunni. Var meðal annars rætt um það hvernig aukið magn rusls í hafi, s.s. plasts, bæri vitni um óskilvirka nýtingu auðlinda. Standa vonir til þess að stefna Evrópuríkja um að draga úr plastnotkun, sem væntanleg er síðar á árinu, geti stuðlað að því að draga úr plastúrgangi í hafi.

Á fundinum lagði umhverfis- og auðlindaráðherra, Björt Ólafsdóttir, áherslu á að Ísland gripi til ráðstafana til að aðlagast loftslagsbreytingum. Þetta væri ekki síst mikilvægt í ljósi þess að flestir Íslendingar búa á strandsvæðum þar sem flóðahætta getur aukist í framtíðinni. Þá væri mikilvægt að bæta ástand vistkerfa landsins s.s. með aukinni skógrækt og endurheimt votlendis, í því skyni að vera betur undirbúin undir aukna hættu á náttúruhamförum. Slíkar aðgerðir leiddu einnig til bindingar kolefnis úr andrúmslofti sem væri mikilvæg aðgerð til að stemma stigu við loftslagsbreytingum. Ráðherra gerði einnig græna orkuframleiðslu landsins að umtalsefni og sagði mikilvægt að í framtíðinni yrði hún nýtt til sjálfbærrar matvælaframleiðslu, samgangna og nýsköpunar í stað stóriðju, sem hafi verið fyrirferðamikill atvinnuvegur hingað til. Til áréttingar þessu hafi ríkisstjórnin lýst því yfir í stefnu sinni að hún myndi ekki veita ívilnanir til nýrra stóriðjuverkefna, og væri það stærsta einstaka skrefið sem íslensk stjórnvöld hefðu stigið hingað til í átt að því að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda frá landinu.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum