Hoppa yfir valmynd
Forsætisráðuneytið

Ný jafnréttisáætlun Stjórnarráðsins

Ráðuneytisstjórar hafa samþykkt nýja jafnréttisáætlun Stjórnarráðsins fyrir árin 2017-2020. Leiðarljós áætlunarinnar er að Stjórnarráðið sé eftirsóknarverður vinnustaður þar sem jafnrétti og jafnræði kynjanna er virt í hvívetna og konur og karlar hafi jöfn tækifæri til að nýta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni.

Jafnréttisáætlunin tekur til Stjórnarráðsins sem sameiginlegs vinnustaðar starfsfólks í ráðuneytum, sbr. 18. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla (jafnréttislaga), og kveður á um markmið og aðgerðir til að tryggja starfsfólki Stjórnarráðsins þau réttindi sem kveðið er á um í jafnréttislögum. Helsta breyting frá fyrri áætlun felur í sér innleiðingu jafnlaunastaðals, ÍST 85:2012, í öll ráðuneyti Stjórnarráðsins fyrir 1. janúar 2018. Þá eru í áætluninni markmið og aðgerðir sem lúta að ákvæðum jafnréttislaga sem varða innra starf ráðuneytanna. Kveðið er á um önnur verkefni þeirra á sviði jafnréttismála í framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára sem samþykkt er á Alþingi sem þingsályktun, sbr. 11. gr. jafnréttislaga.

Sérhvert ráðuneyti ber ábyrgð á að framfylgja jafnréttisáætlun Stjórnarráðsins innan sinna vébanda en er jafnframt heimilt að forgangsraða verkefnum og ákvarða fleiri í sérstakri framkvæmdaáætlun eftir aðstæðum í hverju ráðuneyti.

Jafnréttisáætlun Stjórnarráðsins

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira