Hoppa yfir valmynd
2. maí 2017 Utanríkisráðuneytið

Aldarfjórðungur frá undirritun EES - Hornsteinn utanríkisviðskipta Íslands

Morgunblaðið 2. maí 2017 - mynd

Í dag eru liðin 25 ár frá því að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið var undirritaður í borginni Óportó í Portúgal. EES-samningurinn hefur frá upphafi þjónað því hlutverki að vera brú Íslands og hinna EFTA-ríkjanna innan EES yfir á innri markað Evrópusambandsins. Samningurinn hefur þjónað þessu hlutverki sínu vel fram til þess og engin ástæða er til að ætla að svo verði ekki áfram. Mikilvægi EES-samningsins er áréttað í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar þar sem segir, að ríkisstjórnin muni byggja samstarf við Evrópusambandið á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

EES-samningurinn er án efa áhrifamesti viðskiptasamningur sem Ísland hefur gert. Samningurinn tryggir ekki aðeins aðgang íslenskra fyrirtækja að mörkuðum í ríkjum Evrópusambandsins og gerir íslenskum ríkisborgurum kleift að leita sér atvinnu og menntunar innan alls Evrópska efnahagssvæðisins, heldur kallar einnig á að Ísland virði þær reglur sem teknar eru upp í EESsamninginn.

Það er þessi síðarnefndi þáttur sem felur í sér stærstu áskorunina í EES-samstarfinu. Upptaka regluverks innri markaðarins í EESsamninginn kallar á stöðuga árverkni af hálfu íslenskra stjórnvalda. Hér þurfa allir að taka höndum saman til að tryggja að staðinn sé vörður um íslenska hagsmuni af fullri einurð: utanríkisþjónustan, ráðuneytin, Alþingi, fyrirtækin í landinu, sveitarfélögin og aðrir hagsmunaaðilar. Samkvæmt EES-samningnum hefur Ísland, líkt og öll EFTA-ríkin innan EES, rétt til þess að taka þátt í mótun reglna innri markaðarins. Það er einfaldlega skylda okkar að nýta þessi tækifæri til fulls og verja hagsmuni okkar í EES-samstarfinu eins og frekast er kostur.

Ég hef því ákveðið að öflugri hagsmunagæsla í EES-samstarfinu verði eitt helsta forgangsverkefni utanríkisþjónustunnar. Í þeim efnum er að ýmsu að huga. Í fyrsta lagi er mikilvægt að auka miðlun upplýsinga um hvað sé á döfinni þegar kemur að mótun nýrra EESreglna. Í öðru lagi þarf að styrkja samráð stjórnvalda við Alþingi og hagsmunaaðila um það sem er efst á baugi innan EES og móta í nánu samstarfi við alla hlutaðeigandi aðila afstöðu Íslands til nýmæla í EES-regluverkinu. Í þriðja lagi þarf að tryggja að sjónarmiðum Ískrossgötum. lands sé rækilega komið á framfæri við Evrópusambandið og aðildarríki þess.

EES-samningurinn hefur tryggt íslensku atvinnulífi aðgang að mikilvægum útflutningsmörkuðum og það er stefna ríkisstjórnarinnar að halda áfram að byggja samskiptin við Evrópusambandið á EES, eins og að framan greinir. Kostur EESsamningsins fyrir okkur Íslendinga felst ekki síst í því að samningurinn tekur til þess kjarna í samstarfi Evrópusambandsríkjanna sem lýtur að frjálsum viðskiptum með vörur, þjónustu og fjármagn, sem og frjálsri för fólks, en bindur ekki hendur okkar þegar kemur að öðrum samstarfssviðum ESB. Hér er ekki aðeins rétt að nefna stefnu ESB í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum, heldur einnig, og ekki síður, hina sameiginlegu viðskiptastefnu ESB. Sú staðreynd að Ísland stendur utan hennar þýðir að við getum sjálf mótað okkar eigin utanríkisviðskiptastefnu og þannig samið sjálf við önnur ríki um fríverslun og önnur viðskiptakjör. Þegar EES-samningurinn var undirritaður stóð Evrópa á krossgötum.

En sú er líka reyndin í dag, enda hefur Evrópusambandið aldrei áður staðið fyrir álíka áskorun og nú, þegar viðræður munu senn hefjast um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Fyrir framtíð- arhagsmuni Evrópu - sem og íslenska hagsmuni - skiptir það gríðarlega miklu að útganga Bretlands úr Evrópusambandinu leiði ekki til þess að nýir tollmúrar eða viðskiptahindranir rísi í Evrópu. En Brexit sýnir enn og aftur mikilvægi þess að Ísland geti mótað sína eigin utanríkisviðskiptastefnu. Enn er margt á huldu um hvernig Evrópusambandið muni þróast á næstu árum.

Í dag býr Ísland hins vegar yfir þeirri ákjósanlegu stöðu að í krafti EES-samningsins eigum við áfram greiðan aðgang að innri markaði ESB en getum um leið tekið okkar eigin ákvarðanir um hvernig við viljum móta samskipti okkar við þau ríki sem standa utan þess.

Höfundur er utanríkisráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum